Skref í baráttunni við offitu

Haustið kallar á spennandi tómstundir sem næra ungviðið líkamlega og andlega. Hvernig væri að kenna börnunum að elda ljúfan mat og auka þannig hollustuvitund þeirra? Matreiðslunámskeið.is býður nú í fyrsta skipti upp á 12 vikna matreiðslunámskeið fyrir börn og unglinga. Guðmundur Finnbogason mun leiða ungviðið í allan sannleikann um mat og matargerð en auk þess munu Ebba Guðný Guðmundsdóttir heilsugúru og þáttarstjórnandi á mbl.is og Atli Arnarsson næringarfræðingur fræða börnin um hollustu.

„Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á spennandi fræðslu sem hvetur krakkana til dáða í eldhúsinu. Með námskeiðinu á að auka jákvætt viðhorf barna til matar og matargerðar og hafa hollustuna í forgrunni. Eftir að hafa haldið spennandi sumarnámskeið fyrir krakka í þrjú ár og kennt börnum heimilisfræði er það trú mín að það sé vel hægt að sporna við því ferli sem á sér stað í dag. Offita og vanþekking í matarmálum eru nátengd. Það er því mikilvægt að byrja strax að ala upp fólk sem hefur jákvæð viðhorf til matar og hollustu og kann að bjarga sér sjálft í eldhúsinu. Þannig verða þessir krakkar síður háðir skyndiréttum og mikið unnum matvörum. Þau verða betur í stakk búin til að meta sjálf hvað þau eiga að borða og hvernig á að matreiða það,“ segir Guðmundur.

Matreiðslunámskeið.is hefur gert samning við Reykjavíkurborg um notkun á Frístundakorti borgarinnar. Nú geta foreldrar borgað hluta námskeiðsgjaldsins með frístundakortinu. Unnið er að því að koma á svipuðum samningum við nágrannasveitarfélögin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert