Moussaka – grískt eggaldinslasagna

Flestir tengja Moussaka við gríska matargerð sem er í sjálfu sér ekki rangt. Hins vegar er hægt að fá svipaða rétti víða fyrir botni Miðjarðahafs þar sem uppistaðan er eggaldin, kjöt og béchamelsósa. Þannig má finna moussaka jafnt við Balkanskaga, í Tyrklandi og jafnvel arabaríkjunum. Aðferðirnar við að gera moussaka eru hins vegar ólíkar og það er gríska útgáfan sem að flestir kannast við.

  • 3 eggaldin

Kjötsósa

  • 500 g kjöthakk, lamb eða naut
  • 1 vænn laukur, saxaður
  • 4-5 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • 2 dl rauðvín
  • 2 tsk óreganó
  • 1,5 tsk kanill

2 msk tómatapúrra, pískað saman við 1,5 dl vatn

Hitið ofninn í 180 gráður. Skerið eggaldin í um hálfssentimetra þunnar sneiðar á lengdina og raðið á smjörpappír á bökunarplötu. Penslið með ólífuolíu báðum megin og bakið í um hálftíma. Snúið við eftir 15 mínútur. Þær eiga að vera orðnar gullnar og mjúkar.

Á meðan eggaldinsneiðarnar eru bakaðar í ofninum er kjötsósan undirbúin. Hitið olíu á pönnu og mýkið laukin í 5-8 mínútur á miðlungshita. Bætið þá hvítlauk, kanil og óreganó út á og blandið vel saman við laukinn. Setjið næst hakkið á pönnuna, hækkið hitann og brúnið. Þegar kjötið er steikt er víninu og tómatablöndunni hellt á pönnuna. Látið malla í rúman hálftíma á vægum hita eða þar til vökvinn hefur nær alveg gufað upp. Bragðið til með salti og pipar.

Béchamel-sósa

  • 5 dl mjólk
  • 60 g hveiti
  • 60 g smjör
  • 2 egg, pískuð
  • 50 g Pecorino eða Parmesanostur, rifinn
  • múskat, hálf til ein teskeið

Hitið hveitið í potti í 1-2 mínútur og hrærið í á meðan. Bætið þá smjörinu út á og pískið saman við hveitið á meðan það bráðnar. Eldið áfram í pottinum í 1-2 mínútur og pískið við og við á meðan. Bætið mjókinni smáma saman út í og pískið saman við. Best er að hafa hana vel volga. Hitið áfram og pískið þar til að sósan er orðin mjög þykk. Bætið ostinum út í og pískið saman við. Takið af hitanum.  Þegar sósan hefur kólnað aðeins er pískuðu eggjunum blandað saman við. Bragðið til með smá rifnu múskati.

Þá er komið að því að setja réttinn saman. Notið stórt form áþekkt því og þið mynduð nota fyrir lasagna. Raðið fyrst þriðjungi af eggaldinsneiðunum í botninn, þá kjötsósu yfir og svo koll af kolli. Hellið loks sósunni yfir þannig að hún þekji alveg.

Eldið í ofni við 180 gráður í 45-50 mínútur.

Kröftugt rautt Miðjarðarhafsvín með, t.d. Gerard Bertrand Carignan

Fleiri grískar uppskriftir má svo finna hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert