Eplakaka með karamellusósu

Eplakökur eru alltaf vinsælar hjá bæði stóra og smáa fólkinu. Þessi gómsæta eplakaka var alveg unaðsleg og heita karmellusósan var punkturinn yfir i-ið. Það eru til margar gerðir af eplakökum og alltaf spurning við hvaða tilefni maður er að gera eplaköku eða hvort maður þarf eitthvert tilefni til. Ég baka oft þessa eplaköku sem er í raun gamaldags eplakaka sem stendur alltaf fyrir sínu við hvaða tilefni sem er. Síðan er eplakaka á hvolfi yndislega mjúk og góð þar sem eplin eru karamelliséruð á pönnu áður en deigið er helt yfir og sett inn í ofn. Kökunni er siðan snúið við og þess vegna heitir hún eplakaka á hvolfi.

En hér er uppskrift að enn einni af góðri eplaköku í safnið.

  • 4 dl sykur
  • 210 grömm ósaltað smjör(lint)
  • 2 egg
  • 4 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1/2 tsk múskat
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk vanilla
  • 3 epli, flysjuð og kjarnhreinsuð

Pecanhnetur eða aðrar hnetur (ef vill)

Stillið ofninn á 180 gráður. Hrærið vel saman sykur og smjör. Bætið eggjunum út í einu í einu. Setjið síðan þurrefnin út í, hveitið síðast.Vanilludroparnir koma siðan þar á eftir. Skerið eplin í litla bita og pecanhnetur ef þið ákveðið að hafa þær með. Bætið út í deigið. Ég var með form 23cm x 33 cm ( 9×13 tommur). Bakist í 40-50 mín.

Á meðan búið þið til karamellusósuna.

Karamellusósa:

  • 150 grömm púðursykur
  • 70 grömm smjör
  • 1 1/2 dl rjómi
  • 1 tsk vanilludropar

Blandið saman púðursykri, smjöri og rjóma í pott og sjóðið þar til sykurinn er uppleystur. Takið pottinn af hita og setjið vanilludropana út í.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka