Humar og risotto er blanda sem á vel saman og sem við höfum verið með fleiri tilbrigði við til dæmis humarrisotto og saffran. Hér byrjum við hins vegar á því að gera létt humarsoð sem grjónin eru soðin í (það þarf ekki að sjóða það eins mikið niður og soð sem nota á sem grunn í sósu eða súpu) og kryddolíu sem tekur í sig bragð úr humarskeljum, fennel og timjan en hún er borin fram með risottoinu.
Það þarf um 800 g af humar í skel í þessa uppskrift. Byrjið á því að taka humarinn úr skelinni og garnhreinsa. Notið ca 2/3 af skeljunum í soðið og 1/3 í olíuna.
Humarsoð
Grófsaxið grænmetið. Hitið olíuna í þykkum potti. Steikið humarskeljar, sellerí, gulrætur og lauk ásamt piparkornum og lárviðarlaufum þar til að þetta hefur tekið á sig lit, 6-8 mínútur. Blandið tómatapúrrunni saman við. Hellið hvítvíninu út í pottinn og sjóðið niður. Bætið nú ca 2,5 lítrum af vatni út í og látið malla í 30-40 mínútur. Síið og geymið soðið.
Humarkryddolía
Skerið laukinn í tvennt. Grófsaxið fennelbelginn. Setjið skeljarnar lauk, fennel, timjan og tómatapúrru á pönnu og steikið í nokkrar mínútur eða þangað til að þetta fer að taka á sig lit. Hellið olíunni á pönnunna og látið malla á vægum hita í um klukkutíma. Síið olíuna frá í gegnum fínt sigti.
Humarrisotto með kúrbít og humarkryddolíu
Haldið humarsoðinu heitu í potti.
Saxið skalottulaukinn og hvítlaukinn. Hitið olíu á stórri pönnu og mýkið laukana í 2-3 mínútur. Bætið þá grjónunum út á og steikið áfram í 2-3 mínútur, þau eiga að vera orðin vel heit. Hellið hvítvíninu út á og leyfið að sjóða nær alveg niður. Byrjið að ausa soðinu út á þannig að það rétt þekji grjónin. Haldið áfram að ausa soðinu út á eins og þarf, einni ausu í einu. Það tekur um 18-20 mínútur að sjóða grjónin og misjafnt hvað þarf að nota mikið af soðinu.
Skerið kúrbítinn í teninga. Þegar að þið eruð búin að sjóða grjónin í um 8 mínútur er kúrbítnum bætt saman við.
Þegar grjónin eru tilbúinn slökkvið þið á hitanum og blandið humarhölunum og ostinum saman við. Látið standa í nokkrar mínútur. Humarinn eldast í heitum grjónunum. Bragðið til með salti og vel af pipar. Hrærið loks smjörinu saman við.
Setjið á diska og sáldrið fínt saxaðri steinseljunni yfir. Setjið um matskeið af olíunni á hvern disk meðfram grjónunum.
Þetta er mikill réttur og það þarf því gott vín með. Við völdum Pieropan La Rocca, einnar ekru vín frá Soave á Ítalíu.
Uppskrift: vinotek.is