Kjúklingur með salvíukryddsmjöri og sítrónu

Salvía er yndisleg kryddjurt sem lagar sig vel að smjöri, hvítlauk og sítrónu. Það er einmitt hráefnið sem að við notum hér í kryddsmjör sem fer undir húðina á kjúklingnum áður en hann er eldaður í ofni.Með kjúklingnum eldum við rótargrænmeti til að nota sem meðlæti.

  • 1 heill kjúklingur
  • ca 6 stórir hvítlauksgeirar
  • 1 væn lúka af ferskum salvíublöðum
  • 30 g smjör
  • 1 sítróna
  • 1 lítill laukur

Rífið börkinn af sítrónunni. Fínsaxið börkin, hvítlauksgeirana og salvíublöðin og blandið vel saman við smjörið.

Þrýstið putta undir húðina á kjúklingnum við læri og bringur þannig að hún losni frá kjötinu  og troðið kryddsmjörinu inn undir skinnið við lærin og bringurnar.

Skerið sítrónuna í bita og laukinn og “fyllið” kjúklinginn. Saltið hann vel og piprið.

Skerið niður gulrætur, lauk og kartöflur og setjið í pott sem má fara inn í ofn. Hellið smá ólífuolíu saman við og blandið saman. Setjið kjúklinginn ofan á.

Setjið inn í 220 gráðu heitan ofn. Lækkið í 200 gráður eftir korter og eldið í a.m.k. 45 mínútur í viðbót. Berið farm með rótargrænmetinu í pottinum.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert