Lambahryggur fylltur með sólþurrkuðum tómötum og feta

Þrátt fyrir að fátt sé algengara í íslenskum kjötborðum en lambakjöt er ekki hefð fyrir því að vinna mikið úr kjötinu. Hryggurinn er sneiddur niður í kótilettur eða skipt upp í file og lundir. Það er hins vegar ekki algengt að sjá svokallaðar “lambakórónur” í kjötborðum þar sem snyrt hefur verið frá beinunum og fitan ofan á hryggnum jafnframt skorin af. Þessi aðferð er frönsk að uppruna og yfirleitt kölluð “frenching” eða “french trimming” á ensku. En það er með þetta eins og svo margt annað – maður getur þá bara bjargað sér sjálfur.

Í þessari uppskrift notum við lambakórónur, en auðvitað mætti allt eins nota heilan hrygg eða hálfan.

  • 1 lambahryggur
  • 1 Fetakubbur
  • 1 búnt flatlaufa steinselja
  • 10 sólþurrkaðir tómatar
  • rósmarín – 2 stönglar
  • 3 hvítlauksgeirar
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Látið kjötborðið skera lambahrygginn í fernt. Bæði langsum og þversum. Snyrtið bitana til. Skerið fituna frá rifbeinunum og hreinsið beinin. Við höldum hins vegar fitunnnu ofan á hryggnum til að fá góða puru.

Ef þið vijið fjóra bita með rifbeinum semjið þið við kjötborðið um að fá tvo hálfa hryggi skorna þannig.

Saxið steinselju og sólþurrkaða tómata smátt. Blandið saman við fetaostinn og um tsk af nýmuldum pipar.

Skerið meðfram miðjubeininu á hryggnum og troðið fyllingunni í – eins miklu og þið komið fyrir. Bindið saman með matarsnæri.

Pressið hvítlauksgeirana og fínsaxið rósmarín. Blandið saman við ólífuolíu og smyrjið á bitana. Saltið vel og piprið.

Setjið bitana á fat og eldið við 200 gráður í um 30 mínútur.

Með þessu kröftugt suður-franskt rauðvín á borð við Gerard Bertrand Tautavel.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert