Þessi súpa á rætur sínar að rekja til Suðaustur-Asíu en Thom Kha Kai-súpur má finna bæði í eldhúsi Taílands og Laos. Þetta eru súpur þar sem kókosmjólk myndar grunninn en önnur hráefni sem yfirleitt eru alltaf notuð eru kaffirlimeblöð, Galangalrót, chili, lemongrass og fiskisósa.
Í okkar útgáfu hér notum við kjúkling sem er mjög algengt en það er lika hægt að notast við fisk í staðinn fyrir kjúklinginn.
Mesta áskorunin við þessa uppskrift reyndist eiginlega vera að ná í rétta hráefnið. Galangalrót skiptir höfuðmáli í þessarri uppskrift en hún er ekki fáanleg alls staðar. Asísku búðirnar komu þó til bjargar eins og svo oft áður. Galangalrót er eins konar afbrigði af engifer nema bragðmeiri og bragðsterkari. Ef þú notar ekki alla galangalrótina er hægt að frysta hana.
Það er best að byrja á þvi að skera allt hráefnið niður. Skerið rauðlaukinn í sneiðar og,kjúklinginn í litla bita. Afhýðið galangalrótina og skerið hana niður. Skerið sitrónugrasið, vorlaukinn og chilibelgin niður.
Byrjið á því að setja smá olíu á pönnu eða í potti og steikið rauðlaukinn, chiliinn og kjúklinginn létt. Þetta er raunar ekki alveg eftir bókinni – svona evrópska leiðin. Í Taílandi er allt bara soðið í kókosmjólkinni án steikingar.
Setjið næst kókosmjólkina út í og leyfið suðinni að koma upp. Setjið þá galangrótina, vorlaukinn og kaffirlime út í. Þar næst kjúklingasoðið, fiskisósuna, og sítrónugrasið . Smakkið til með lime. Að lokum er gott að bragða til með smá sykri. Skreytið með kóriander
Galangalrótin og sítrónugrasið er yfirleitt ekki borðað með. Það má sía frá eða einfaldlega skilja eftir í skálunum.
Uppskrift: vinotek.is