Núðlusúpa fyrir þá sem eru að spara

Núðlusúpa sem yljar í kuldanum.
Núðlusúpa sem yljar í kuldanum. Ljósmynd/Valdís Sigurgeirsdóttir

Þeir sem ætla að spara í febrúar en fá samt sem áður góða næringu ættu að prófa núðlusúpuna hennar Valdísar Sigurgeirsdóttur flugfreyju og matarbloggara á ljómandi.is

1 msk kókosolía eða ghee

1 msk rifin engiferrót

3 hvítlauksgeirar

1/2 rautt chili

2-3 stórar gulrætur

1 1/2 líter vatn

2 msk grænmetiskraftur

1 tsk túrmerik

1/2 tsk kóríander

1 msk tamarisósa

2 tsk sesamolía

1 msk hlynsíróp

1 lítill hvítkálshaus

375 gr núðlur (jafnvel glútenlausar) eða hrísgrjónanúðlur

VAL: misoduft (sjá umfjöllun neðar í pósti)

  1. Setjið kókosolíu í pott.
  2. Rífið niður engiferrót og hvítlauk, saxið chili smátt og skerið gulræturnar í litla bita og leyfið að malla smá stund.
  3. Bætið vatninu út í ásamt kryddinu og leyfið suðunni að koma upp.
  4. Sjóðið pastað í öðrum potti samkvæmt leiðbeiningum og setjið svo í skál þegar tilbúið.
  5. Rífið hvítkálið niður í litla bita í höndunum og setjið í súpupottinn ca. 5 mínútum áður en súpan er tilbúin því það á bara rétt að mýkjast.
  6. Súpan fer svo á diskinn og núðlurnar út í í því magni sem þú vilt.

„Hugmyndin að þessari súpu kemur frá Elínu vinkonu minni sem er snillingur í eldhúsinu og bakarameistari af guðs náð. Ég heimsótti hana um daginn þegar hún var að elda núðlusúpu og lyktin í húsinu hennar var svo dásamleg svo ég fór að kíkja í pottana. Hún setti hvítkál út í súpuna og ég gat bara ekki hætt að hugsa um þessa súpu því mér finnst soðið hvítkál svo hrikalega gott. Hver man ekki eftir kálbögglum í gamla daga? Krakkarnir mínir biðja ömmu sína reglulega um að gera þá handa sér og þau eru með risa matarást á Ömmu Hönnu. Ég mun t.d. aldrei ná að mastera hrísgrjónagraut eins vel og hún að þeirra mati.

Núðlurnar í súpunni þurfa alls ekki að vera glútenlausar og Elín notaði hrísgrjónanúðlur sem hún sauð í ca. 2 mínútur í öðrum potti en þá er hægt að ráða hversu mikið af núðlum fer á súpudiskinn þinn. Súper einföld súpa sem er holl, bragðgóð og fljótleg.

Ef þú vilt bæta við próteinum í súpuna geturðu þess vegna notað egg út í, rækjur eða kjúkling. Það er líka snilld að setja misoduft út á súpur til að fá góða gerla og er algjör næringarbomba. Misoduftið þarf reyndar að vera ógerilsneytt eða unpasturised því engir gerlar eru í því gerilsneydda. Passið bara að setja aldrei misoduft í sjóðandi vatn því þá drepast gerlarnir, vatnið má helst ekki vera meira en 50 gráður. Misoduft bragðast einkar vel með hvítlauk og engifer. Misoduftin frá Clear Spring fást á GLÓ FÁKAFENI og í JURTAAPÓTEKINU,“ segir Valdís.

Girnileg núðlusúpa.
Girnileg núðlusúpa. Ljósmynd/Valdís Sigurgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert