Ásdís Ásgeirsdóttir
Trixin hans Óskars
Óskar Finnsson kennir nú Íslendingum að elda góða og auðvelda rétti í nýjum þætti á mbl.is. Þar sýnir hann á fimm mínútum hvernig má gera heimilismat á stuttum tíma, mat sem allir í fjölskyldunni munu borða. Óskar vill að fólk eldi ríflega, því að nýta má afganga í dásamlega rétti og slá þá tvær, ef ekki þrjár, flugur í einu höggi. Í fyrsta þættinum eldaði Óskar kjúklingabringur fylltar með gorgonzola og vafðar í parmaskinku, en þá uppskrift má finna hér á mbl.is. Hér eru tvær aukauppskriftir úr afgöngum og eru þær ekki af verri endanum. Klúbbsamloka og G&P-salat að hætti kokksins mun slá í gegn á blautum og köldum mánudegi, því getum við lofað. Hægt er að fylgjast með á facebook og instagram undir nafninu korter í kvöldmat.
Klúbbsamloka
Klassískar klúbbsamlokur má finna alls staðar, en þær eru framreiddar á búllum jafnt sem fimm stjörnu hótelum. Uppistaðan er kjúklingur, beikon, salat, tómatar og majones en hér er notast við afganga, kjúklingabringur með gorgonzola, vafnar í parmaskinku.
Uppskrift
kjúklingabringa vafin í parmaskinku, hituð smá í örbylgju
salatblað
tómatur skorin í sneiðar
majónes
baguette-brauð eða ristað franskbrauð
kartöflur (hitaðar í örbylgju)
Takið brauð og smyrjið með majónesi, raðið saman skornum kjúklingnum, tómötum, salatblaði og hituðum kartöflum.
Salat
Tilvalið er að búa til gott salat úr afgöngum. Aðferðin er frjáls en uppistaðan er afgangar af parmakjúklingi og kartöflum.
Uppskrift
tómatar
kjúklingur
kartöflur
Bæta má við því sem til er í ísskáp, t.d. avókadó, papriku eða öðru grænmeti.
Dressing
sýrður rjómi
safi úr ½ sítrónu
gorgonzola ostur
Blandið þessu vel saman. Má krydda eftir smekk, t.d. með smá karríi eða teskeið af dijon-sinnepi til að fá allt annað bragð.
Sjá líka hér: Parmaskinku-kjúklingabringur
Trixin hans Óskars