Kraftmikið Spagetti sem gælir við bragðlaukana

Óskar Finnsson kokkar upp hinn klassíska ítalska rétt spagettí bolognese að sínum hætti með fullt af hvítlauk og chilli í þætti dagsins. Uppskriftin miðast við fjóra en það er um að gera að elda ríflegan skammt því afgangana má nýta bæði í chili con carne og gratinerað bolognese, en það sýnir Óskar okkur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Uppskrift fyrir 4

Við byrjum á grænmetinu. Paprika, laukur og chili eru söxuð, og hvítlaukurinn marinn og saxaður.

Panna sem er nógu stór til að rúma hakkið og grænmetið er hituð og hakkið steikt með salti og pipar. Þegar að hakkið er orðið brúnt drögum við pönnuna til svo hluti hennar standi út fyrir helluna og færum allt kjötið á þann hluta. Grænmetinu er svo smellt á þann hluta pönnunnar sem enn liggur á hellunni og steikt ásamt olíu þar til það er farið að mýkjast. Svo setjum við pönnuna aftur á alla helluna og blöndum grænmetinu og kjötinu vel saman.

Við þetta bætum við niðursoðnu tómötum, smá vatni, kjötkrafti, oregano og rósmaríni. Ef við viljum að kjötsósan rífi aðeins í er um að gera að bæta smá tabasco út í, allt eftir smekk.

Það er gott að setja smá sætu út í kjötsósuna og þá er tómatsósa alveg ljómandi, en það má vel skipta henni út fyrir 1 matskeið af hunangi.

Nú er bara að láta þetta malla á lágum hita í um 15-20 mínútur, og ef tími gefst er ekki verra að láta kjötsósuna malla enn lengur.

Á meðan kjötsósan mallar setjum við yfir pott með vatni fyrir pastað og ofninn er hitaður í 180°. Þegar sér fyrir endann á mallinu þá er spaghettí soðið eftir leiðbeiningum og baguette brauðin sett inn í ofn, en þetta tekur um það bil sama tíma að verða tilbúið.

Þegar pastað er soðið er vatninu hellt af og smá olíu hellt yfir það til að koma í veg fyrir að það festist saman. Spagettíið er sett í skál og kjötsósan yfir.

Til að setja réttinn í sparibúninginn er um að gera að skreyta hann aðeins. Smá klettasalat og ferskir niðurskornir tómatar eru sett ofan á, og punkturinn yfir i-ið er að rífa örlítið af parmesanost yfir allt saman.

Spagettí bolognese á borð borið!

Sjáðu uppskriftirnar úr Sunnudagsblaði Morgunblaðsins HÉR

HÉR má sjá fleiri þætti af Korter í kvöldmat

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert