Bragðmiklar New York bollur með Parmesan

Óskar Finnsson kokkur eldar bragðmiklar New York bollur með parmesanosti í þætti dagsins, Korter í kvöldmat. Bollurnar eru bakaðar með ostinum og bornar fram með pasta og ljúffengri og ótrúlega fljótlegri tómatsósu.

„Allra fyrsta skrefið er að hita ofninn svo osturinn bráðni yfir bollunum þegar þær eru tilbúnar, 200° skulu það vera.

Lítill laukur og einn chili pipar eru saxaðir og settir í skál ásamt hakki, rósmaríni, hunangi, eggi og smá Tabasco sósu og er hráefnið hrært saman. Því næst eru fjórir hvítlauksgeirar rifnir yfir og öllu blandað vel saman. Eins í svo mörgu er einfaldlega best að nota hendurnar til verksins.

Þegar blandan er orðin jöfn er brauðraspinu bætt við og haldið áfram að hnoða. Raspið heldur bollunum saman og býr til góða áferð á þeim eftir steikingu.

Þegar hér er komið er gott að setja yfir vatn í potti fyrir pastað.

Úr blöndunni hnoðum við um 5 cm stórar bollur. Ólífuolía er sett á pönnuna og hún hituð vel áður en bollurnar eru steiktar því stefnan er að þær brúnist vel og verði stökkar að utan. Það er gott að þrýsta aðeins ofan á bollurnar við steikingu svo flöturinn sem liggi á pönnunni verði stærri og bollurnar verði enn stökkari.

Kjötbollurnar eru ekki fulleldaðar á pönnunni. Þegar þær eru orðnar vel brúnaðar eru bollurnar settar í ofnfast mót, nóg af parmesanosti stráð yfir og settar í heitann ofninn í hámark 10 mínútur, eða þangað til osturinn er farinn að krauma.

Þegar bollurnar eru farnar í ofninn er pasta sett í pottinn sem ætti að vera fullur af sjóðandi vatni núna, og það er soðið eftir leiðbeiningum. Flestar gerðir af pasta taka um 10 mínútur að sjóða svo það ætti að vera tilbúið á svipuðum tíma og kjötbollurnar.

Á meðan bollurnar og pastað malla er um að gera að smella í fljótlega tómatsósu. Það er mikið bragð á pönnunni sem kjötbollurnar voru steiktar á og til að ná því upp er einni dós af niðursoðnum tómötum bætt á pönnunna og skófirnar hrærðar upp. Við tómatana er bætt einum tening af kjötkrafti, 1 dl rjóma og 1 tsk af oregano, en sósan þarf ekki að vera mjög bragðmikil því það er mikið bragð af kjötbollunum. Þetta þarf ekki að malla nema í um 2 mínútur, sósan er tilbúin um leið og hún fer að þykkna örlítið.

Þegar osturinn er farinn að að krauma eru kjötbollurnar teknar úr ofninum og settar út á pönnuna. Það er óþarfi að velta þeim upp úr sósunni, þær líta svo ljómandi vel út með bráðna ostinum.

Það er mikið bragð í soðinu sem verður eftir í ofnfasta mótinu og það er um að gera að nýta það og hella yfir réttinn, það gefur sósunni enn meira og betra bragð.

Þegar pastað er soðið er vatninu hellt af og það borðið fram ásamt bragðmiklu New York kjötbollunum. Til að toppa réttinn er glæsilegt að strá smá parmesanosti yfir hvern disk.

Kjötbollur geta verið mjög fjölbreyttar og leyndarmálið hér er að hengja sig ekki um of á uppskriftina heldur að tína það til sem er til og manni þykir gott,“ segir Óskar.

Það er um að gera að elda meira en minna af þessari uppskrift því í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sýnir Óskar okk­ur hvernig við get­um nýtt af­gang­ana af bollunum.

HÉR er hægt að sjá fleiri þætti af Korter í kvöldmat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert