Bearnaise með öllu, nema kannski eftirréttum

„Bearnaise sósa er góð með öllum mat. Kannski ekki eftirréttum, en öllu öðru,“ segir Óskar Finnsson kokkur, sem sýnir í þætti dagsins hvernig á að gera guðdómlega bearnaise sósu frá grunni í þættinum Korter í kvöldmat. 

„Fyrst eru fimm egg brotin í skál og rauðurnar eru veiddar upp úr með höndunum. Það má skilja eggin á hvaða máta sem er, en það er best að sem minnst af eggjahvítu fylgi rauðunum.

500 grömm af smjöri er sett í pott og látið bráðna við meðal hita. Þegar smjörið er byrjað að bráðna eru eggjarauðurnar settar í skál yfir pottinum og þeyttar. Í mörgum uppskriftum er notast við vatnsbað í þessu ferli en það er í raun einfaldast að nota hitann sem stígur upp frá smjörinu til að hita skálina og rauðurnar,“ segir Óskar. 

Hann mælir með því að eggjarauðurnar séu þeyttar í 2-3 mínútur, eða þar til þær eru orðnar léttar og ljósar. 

„Þá eru rauðurnar teknar af pottinum og smjörinu (sem ætti að vera orðið bráðið) hellt í mjórri bunu saman við rauðurnar og hrært kröftuglega (hér má skipta öflugum framhandleggsvöðvum út fyrir handþeytara, ef vill).

Þegar sósan er farin að þykkna þá er 1 teskeið af bearnaise essens bætt við áður en haldið er áfram með smjörið. Sem fer út í á sama máta, í mjórri bunu á meðan þeytarinn eða framhandleggsvöðvarnir ganga.

Bearnaise sósan getur kannski ekki verið of þykk, en hún getur verið of þunn,“ segir Óskar, en sósan ætti að vera í þykkari kantinum þegar allt smjörið er komið út í, að undanskildu hvíta botnfallinu í smjörinu.

„Þá er að krydda. Út í sósuna fara tvær matskeiðar af estragoni, 1 teskeið af fljótandi kjötkrafti, ½ tsk af bearnaise essens í viðbót ef vill, og vel af pipar.“

Óskar segir að þessi sósa passi algerlega með öllum mat hvort sem þú ert með fisk, steik eða franskar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert