Ilmandi Mexíkó baka með fersku salsa

„Þetta er ótrúlega einföld og skemmtileg útgáfa af mexíkóskri böku,“ segir kokkurinn Óskar Finnsson um uppskriftina í þætti dagsins af Korter í kvöldmat.

Pannan er hituð með ólífuolíu, á meðan hún hitnar skerum við ¾ af paprikunni. Þegar pannan er orðin sjóðandi er hakkið sett á og steikt ásamt Mexíkó kryddinu.

Chiliið er saxað ásamt lauknum, en eins og með paprikuna skiljum við smá lauk eftir sem við notum til að búa til smá salsa og skreyta bökuna með þegar hún er tilbúin.

„Chili er ómissandi, einn er fínn. Ef þið viljið hafa þetta sterkt þá setjið tvo út í. Ef þið viljið loga þá eru það þrír,“ segir Óskar.

Þrátt fyrir að þetta sé baka þarf ekkert að standa í því að búa til deig. Í staðinn er ofnfast mót smurt með olíu og klætt með tortilla kökum. Kökunum er þrýst í botninn á mótinu og upp með hliðunum, athugð að kökurnar þurfa að þekja fatið alveg.

Þegar hakkið er tilbúið er pannan dregin til hliðar og hakkið dregið á þann hluta sem stendur út fyrir helluna.  Smá ólífuolíu er hellt á hlutann sem enn liggur á hellunni, grænmetinu bætt við og léttsteikt „við ætlum ekki að brúna grænmetið, við ætum bara að mýkja það aðeins.“

Þegar grænmetið er búið að mýkjast er því blandað saman við hakkið og út á pönnuna fer hálf krukka af tex mex sósu. Þetta fær svo að malla á meðan að avocado sósan er undirbúin.

Sósan er ótrúlega einföld, avocado er stappað gróflega, út í það fara egg sem eru skorin í eggjaskera eins og þau séu á leiðinni í rækjusalat, út í það fer sítrónusafi og sýrður rjómi. „Einfalt, einn tveir og tíu!“ Eins og Óskar orðar það.

Hakkblandan ætti þá að vera búin að malla nægilega lengi og orðin ilmandi. Pannan er tekin af hitanum og hakkinu er hellt ofan á kökurnar sem þekja kökumótið. Því næst eru nachos flögur settar yfir „og svo endum við á því að setja ostinn yfir. Persónulega set ég frekar mikinn ost,“ segir Óskar.

„Þetta fer í ofninn á 180° í 10-15 mínútur, við erum í rauninni bara að baka kökurnar og bræða ostinn.“

Þeir allra hugrökkustu smeygja spaða undir bökuna þegar hún er tilbúin og lyfta henni yfir á disk eins og Óskar gerir, þeir sem leggja hins vegar ekki í svoleiðis ævintýri geta borið bökuna fram í fatinu.

Punkturinn yfir i-ið í þessum rétti er ferskt salsa sem er einfaldlega gert með því að saxa afganginn af paprikunni og lauknum ásamt tómati og hvítlauk (ef vill) og blanda saman með smá ólífuolíu.

„Við tökum salat, rífum bökuna yfir og setjum svo ferska salsað yfir. Þá er Mexíkóbakan okkar tilbúin!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert