Stökkt baguette með kjúklingafyllingu

Fyllt baguette-brauðið verður brakandi stökkt að utan og með mjúkri …
Fyllt baguette-brauðið verður brakandi stökkt að utan og með mjúkri og sérlega bragðgóðri fyllingu. Ásdís Ásgeirsdóttir

Óskar Finnsson kokkur eldaði safaríkar kjúklingabringur í síðasta þætti af korter í kvöldmat. Hér nýtir hann afganginn af kjúklingnum í tvo ferska, fljótlega og sérlega sumarlega rétti.

Baguette fyllt með kjúklingi og eggjum

Takið meðalstórt baguette og skerið innan úr því „V“ og hreinsið úr því mesta hvíta deigið. Skerið niður kjúklinga- og grænmetisafgangana í litla bita og setjið í skál, brjótið því næst tvö egg út í og hrærið öllu vel saman. Setjið fyllinguna í baguette-brauðið og leggið 2–3 ostasneiðar yfir. Pakkið síðan brauðinu inn í álpappír og bakið í 25 mín. á 180 gráðum.

Rétturinn er bestur borinn fram heitur með silkimjúkri og sáraeinfaldri dijondressingu. Hráefnunum er einfaldlega blandað vel saman og dressingin borin fram.

Það sem gerir þetta salat það allra besta er sítrónudressing …
Það sem gerir þetta salat það allra besta er sítrónudressing sem kemur manni í sumarskap. Ásdís Ásgeirsdóttir

Ferskt kjúklingasalat

Rífið Lambhagasalatið gróft niður en ef þið notið spínat þarf ekki að skera það. Skerið papriku, gúrku og rauðlauk gróft niður. Skerið kjúklingaafgangana niður í grófa 1–2 cm teninga og blandið öllu saman.

Punkturinn yfir i-ið í þessu salati er ótrúlega fersk sítrónudressing. Hráefnunum er einfaldlega blandað vel saman og dressingunni hellt yfir salatið rétt áður en það er borið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert