Í síðasta þætti af Korter í kvöldmat töfraði Óskar Finnsson kokkur fram glæsilega fiskibolluborgara. Það þarf aðeins nokkrar bollur á borgara fyrir fjóra, svo kokkurinn gerði sér lítið fyrir og snaraði fram tveimur uppskriftum til að nýta afgangana í. Annars vegar ítalskt fiskibollusalat og hins vegar gulrótafiskibolluragú.
Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Skerið fiskibollurnar í báta. Steikið beikonið eða ef þið eigið enn þá steikt beikon frá kvöldinu áður getið þið notað það. Skerið hverja beikonsneið í fjóra hluta. Hitið bollurnar í örbylgjunni. Blandið pastanu, beikoninu, basil og niðurskornum tómötum saman í skál ásamt 4 msk. af ólífuolíu og stráið vel af parmesanosti yfir. Saltið og piprið eftir smekk. Ekki skemmir að hafa gott baguette-brauð með.
Skerið fiskibollurnar í 4–6 báta. Skerið gulræturnar í svipaða stærð og sjóðið í 10 mínútur í söltuðu vatni. Steikið beikonið og skerið í fjóra hluta. Bætið því næst 30 g af smjöri á pönnuna og bræðið. Rétt áður en smjörið verður brúnt eru gulræturnar, fiskibollurnar og beikonið sett út á pönnuna, hitað og velt saman þangað til að bollurnar eru orðnar heitar í gegn. Setjið á disk og myljið svartan pipar yfir, stráið svo 2–3 tsk. af gráðostasósunni yfir og berið fram með brakandi baguette-brauði.