Senn líður að helgi sem þýðir nammidagur á mörgum heimilum, þá er tilvalið að bjóða upp á sykursæta eftirrétti sem hægt er að vippa fram úr erminni með lítilli fyrirhöfn. Annars vegar fáum við eftirrétt úr kókósmjólk, eplum og kókósbollum og hins vegar Marsfylltar pönnukökur og hvort tveggja er borið fram með silkimjúkum vanilluís. Þessir réttir eru tilvaldir til að gera heima eða í sumarbústaðnum og munu slá í gegn hjá sætindagrísum.
Afhýðið eplin og skerið í 2 cm bita. Setjið 3–4 msk. af karamellusósunni á pönnu og hitið. Setjið eplabitana út í sósuna og látið krauma í eina mínútu. Hristið vel kókosmjólkurdósina, opnið og hellið út á pönnuna og látið malla í 3 mínútur. Setjið allt í eldfast mót og raðið kókosbollunum sem búið er að skera endilangt í sundur ofan á og látið súkkulaðihjúpinn snúa niður. Setjið undir grillið í ca 1 mín. eða þangað til að þetta verður fallega brúnt. Berið fram með vanilluís.
Bakið pönnukökurnar og hafið þær í þykkari kantinum. Kljúfið Mars-súkkulaðið í tvennt langsum. Setjið pönnuköku á disk og raðið tveimur Mars helmingum á hana. Hitið í örbylgju í 30–40 sekúndur eða þangað til Marsið er farið að bráðna aðeins. Setjið síðan skorin jarðarber í smáhaug á pönnukökuna og bætið síðan við þremur litlum matskeiðum af vanilluís og hellið karamellusósu yfir. Brjótið pönnukökuna saman og njótið.