Bragðmikill kjúklingur með mojito-sósu

„Þessi kjúklingaréttur er alveg geggjaður, hann er einfaldur í undirbúningi og svo er hann líka hollur,“ segir Óskar Finnsson kokkur. Kjúklingurinn er í þetta sinn borinn fram með gulrótum, fennel og unaðslega ferskri sósu með mojito-keim.

Uppskrift

Kjúklingurinn er skorinn í stóra bita, „smásteikur“ eins og kokkurinn orðar það. Hann er settur í skál ásamt 3 tsk. af sinnepi, 1 tsk. af hunangi, timjan og smá ólífuolíu og öllu er blandað vel saman. Kjúklingurinn er svo steiktur á pönnu við meðalhita, ekki of háan svo að sinnepið brenni ekki.

Því næst er að græja grænmetið. „Fennel, gulrætur, sinnep og kjúklingur er rosalega gott saman, fennel er alveg frábært krydd!“

Fennelið er klofið, kjarninn er skorinn innan úr og hent, og það skorið í sneiðar. Gulræturnar eru skornar í um 1–2 cm langa bita og þeim bætt á pönnuna með kjúklingnum.

„Ég geri ráð fyrir því að hver og einn borði tvær gulrætur því það er ekkert annað meðlæti með nema sósan.“

Þegar kjúklingurinn og gulræturnar hafa mallað á pönnunni í nokkrar mínútur er þetta fært yfir í ofnfast mót ásamt fennelinu, og bakað við 180° í 10–15 mínútur.

Sumarleg sósa með mojito keim

„Það er smá mojito bragð af sósunni,“ sem er létt og fersk, sem smellpassar með fenneli og sinnepi. Ekki skemmir fyrir að hún gæti varla verið einfaldari. Gúrkan er skorin smátt og myntan er söxuð. Saman fer þetta í skál ásamt sýrðum rjóma, salti, pipar og örlitlu hunangi, og öllu hrært vel saman. Sósan er enn betri þegar hún hefur fengið að standa aðeins, svo það er lítið mál að flýta fyrir sér með því að gera hana fyrr, jafnvel daginn áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert