„Fyllt svínalund með brie, borin fram með sætum kartöflum, eplum og rúsínum… þetta gerist ekki mikið betra!“ Segir Óskar Finnsson kokkur um réttinn sem hann snarar fram í þætti dagsins af Korter í kvöldmat. Einfalt, fljótlegt og ótrúlega bragðgott.
Kartöflurnar eru skornar niður í litla teninga og settar í ofnfast mót með ólífuolíu, salti og pipar. Þetta fer inn í 180° heitan ofn í 20 mínútur.
Það þarf að snyrta lundina lítillega áður en hún er elduð, „sinina sem liggur ofan á lundinni þurfum við alltaf að hreinsa frá, sama hvort það séu svína, lamba eða nautalundir, þessi sin verður að fara.“ Lundin er svo skorin í tvennt til að auðvelda næstu skref.
„Nú kemur erfiði hlutinn, við ætlum að stinga hnífnum inn í miðja lundina og passa að hann fari ekki í gegn, svo hreyfum við hnífinn aðeins í sárinu og drögum hann út. Til að gera þetta alveg fullkomið tökum við stál eða sleif, stingum í sárið og opnum það aðeins.“
Að fylla lundina er í sjálfu sér ekkert flókið að Óskars sögn, „þetta snýst um að nudda ostinum saman og móta hann í ræmu sem við getum mjakað inn í svínalundina. Þetta er tilbúið þegar það kemst ekki meira inn.“
Til að byrja með eru lundirnar steiktar á pönnu með ólífuolíu. „Við viljum fá pönnuna mjög heita því við erum í raun bara að loka lundunum á henni, þær klára svo steikinguna í ofninum.
Á meðan að lundirnar eru á pönnunni eru þær kryddaðar með salti og pipar, meira krydd er óþarft því bragðið kemur úr ostinum og frá kartöflunum.
„Þegar við steikjum þykkar steikur eins og þessar þurfum við að steikja þær á öllum fjórum köntum,“ segir Óskar, svo fer kjötið beina leið inn í ofn í 15-20 mínútur við 180° hita.
Þegar kjötið er komið inn í ofn er tímabært að snúa sér að eplunum, sem eru söxuð og bætt í fatið með kartöflunum ásamt rúsínunum. Eplin þurfa um það bil helmingi styttri eldunartíma en kartöflurnar svo fatið fer aftur inn í ofn í um 10 mínútur í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.
Þegar kartöflublandan er tilbúin er hún tekin úr ofninum, örlitlu hunangi stráð yfir og öllu hrært vel saman.
Á þessari stundu ætti lundin líka að verða tilbúin og lítið annað að gera enn að bera á borð. Rétturinn er neflinlega ekki flóknari en þetta, það þarf ekki einu sinni sósu með. „Lundin er full af osti svo það þarf ekki sósu, en ef við viljum setja eitthvað með þessu er nóg að setja örlítinn sýrðan rjóma.“