Gratíneraðar rækjur og girnilegir klattar

Óskar Finnsson kokkur fór með bragðlaukana í ferðalag til Taílands í síðasta þætti af Korter í kvöldmat. Ferðalagið heldur áfram og hér snarar hann fram girnilegum rækjuklöttum og gratíneruðum rækjum á brauði úr afgöngunum.

Rækjuklattar

Setjið eitt egg út í afgangana af rækjuréttinum ásamt 3–4 msk. af hveiti. Nuddið vel saman þannig að þetta verði mátulega þykkt og búið síðan til klatta. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið klattana á hvorri hlið í 2–4 mínútur. Kryddið með salti og pipar. Mjög gott að bera fram með góðu salati og þessari gómsætu hvítlauksdressingu:

  • 3 msk. af 18% sýrðum rjóma
  • 2 saxaðir hvítlauksgeirar
  • 1 msk. steinselja
  • salt og pipar

Öllu er blandað saman og sósan borin fram með klöttunum.

Gratíneraðar rækjur á brauði

Ristið linsubaunabrauð og hitið afgangana í örbylgju og setjið ofan á brauðið. Setjið svo vel af osti og gratínerið í miðjum ofni í u.þ.b. 10 mín. Skreytið með graslauk og berið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert