„Ég ætla að sýna ykkur ótrúlega einfalda súpu. Hún er bragðmikil, og full af grænmeti og lambakjöti. Eitthvað sem öllum þykir gott!“ segir Óskar Finnsson kokkur sem töfrar fram girnilega og bráðholla súpu í þætti dagsins af Korter í kvöldmat.
Lambakjötið er skorið niður í um 2 cm bita og steikt við háan hita í pottinum með 4 msk. af ólífuolíu, salti og pipar.
Á meðan kjötið brúnast eru rófur, sellerírót, fennel, gulrætur skorin niður ásamt því að saxa chili og hvítlauk. Fennel er ekki algengasta grænmetið á íslenskum heimilum, en bragðið fer mjög vel með lambakjöti að sögn Óskars. Hafa ber í huga að rótin er ekki nothæf og því þarf að skera hana frá.
„Þetta er grænmetið sem við notum, en ef ykkur finnst blómkál eða spergilkál æðislegt þá að sjálfsögðu noti það í súpuna. Þetta snýst um að raða því sem manni sjálfum þykir gott saman í súpu, því þá endar hún sem eitt stórt ævintýri og verður algjört sælgæti!“
Þegar kjötið er búið að brúnast er 2 l af vatni bætt út í og suðan látin koma upp. Hér er gott að hræra vel til að ná öllu bragðinu úr botninum á pottinum eftir steikinguna.
Út í pottinn fer svo eitt lárviðarlauf, allt grænmetið og þriðji lítrinn af vatni. Súpan er svo bragðbætt með 1 tsk. af rósmaríni, 1 tsk. af timjan og ½ tsk. af kúmeni, 2 tsk. af dijon sinnepi, 3 msk. af fljótandi kjötkrafti.
Eftir að súpan hefur mallað í 45 mínútur er hún tilbúin, en verður bara betri ef hún sýður 30 mínútur í viðbót. Á þessu stigi er gott að smakka hana til, hér bragðbætir Óskar súpuna enn frekar og bætir í hana 1/3 dós af pastasósu og 4-6 dropum af tabasco-sósu.
„Svona súpa með nýbökuðu brauði er náttúrlega bara sælgæti. Muniði bara að laga of mikið af súpu því á morgun verður hún mjög góð og eftir tvo daga verður hún æðisleg!“