Óskar Finnsson tók hina klassísku íslensku kjötsúpu og setti sinn sérstaka brag á hana með ýmsum kryddum í síðasta þætti af Korter í kvöldmat.
Eins og flestir vita verður kjötsúpa enn betri daginn eftir svo það borgar sig að elda ríflegan skammt. Súpuafganginn má nota á ýmsa vegu, til dæmis í mexíkóska vefju eða gera súpuna enn matarmeiri með pastaslaufum.
Hitið afganginn af súpunni í potti. Hitið tortillur í örbylgju eða ofni. Smyrjið vel með rjómaosti. Sigtið vökvann frá súpunni og setjið kjötið og grænmetið í vefjurnar. Gott er að setja með rifinn ost og jafnvel salsa-sósu.
Pastasúpuveisla
Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Hitið afganginn af súpunni í stórum potti og bætið svo pastanu út í. Berið fram með nýbökuðu brauði.