Aukin aðsókn í Friðheima eftir heimsókn Kardashians

Þekktasti og vinsælasti réttur Friðheima er eflaust tómatsúpan.
Þekktasti og vinsælasti réttur Friðheima er eflaust tómatsúpan. Ljósmynd/Friðheimar

„Það er búið að vera mjög gestvænt hjá okkur í sumar og gaman að sjá þá miklu aukningu sem hefur orðið á komu Íslendinga,“ segir Knútur Rafn Ármann, eigandi Friðheima. Staðurinn vakti talsverða athygli í apríl þegar Kim Kardashian, Kanye West, Kourtney Kardashian og fylgdarlið þeirra heimsóttu hann í Íslandsför sinni.

Á Friðheimum í Bláskógabyggð eru ræktaðir tómatar allan ársins hring í raflýstum gróðurhúsum. Það eru hjónin Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir sem búa á Friðheimum ásamt börnunum sínum fimm en öll taka þau virkan þátt í búskapnum. Árið 2012 ákvað fjölskyldan að opna veitingastað inni í gróðurhúsinu en fyrst um sinn var hann aðeins ætlaður fyrirframbókuðum hópum. Árið 2014 var staðurinn síðan opnaður í þeirri mynd sem hann er í í dag, opinn alla daga allt árið um kring frá 12 til 16.

Kardashian-gengið naut matarins á Friðheimum.
Kardashian-gengið naut matarins á Friðheimum. Ljósmynd/Skjáskot af Snapchat

Kardashians og Bill Gates á meðal gesta

Fjölskyldan tók strax þá stefnu að auglýsa staðinn ekki heldur leyfa honum frekar að spyrjast út. „Allt saman vekur þetta athygli á staðnum, bæði þegar Bill Gates kom til okkar í fyrrasumar og Kim Kardashian og þau núna,“ segir Knútur sem er ánægður með fjölgun Íslendinga í ár.

„Meginuppistaðan af okkar gestum hafa yfirleitt verið erlendir ferðamenn en yfir sumartímann hefur orðið sprenging í heimsóknum frá Íslendingum og það er voða gaman að fá landa okkar í heimsókn,“ segir Knútur. Hann segir samfélagsmiðla líkt og Facebook, Instagram og Snapchat leika stórt hlutverk og hafa mikil áhrif. „Um leið og þú ert kominn inn í umræðuna og fólki líkar vel og er ánægt þá er það duglegt að deila og láta vita af því og það er fljótt að spyrjast út.“

Þá segir hann einnig skemmtilegt að sjá hvað unga fólkið hafi tekið við sér og sé duglegt að koma við. „Fólk hefur verið að koma með unglingana sína sem vildu áður kannski ekki fara mikið út fyrir Árbæinn en langar allt í einu nú að fara austur í Friðheima þar sem Kardashians voru. Þetta hefur greinilega opnað heim unga fólksins að fara eitthvað annað og það er frábært.“

Gestirnir borða innan um plönturnar.
Gestirnir borða innan um plönturnar. Ljósmynd/Friðheimar

600 býflugur á staðnum 

Matseðillinn á Friðheimum er einfaldur og konseptið mjög skýrt. Veitingastaðurinn er staðsettur inni í gróðurhúsinu og gestirnir sitja innan um plönturnar sem maturinn kemur af. „Við köllum þetta frekar matarupplifun en veitingastað þar sem við segjum öllum okkar gestum frá því hvernig við förum að því að rækta tómata hér á Íslandi allt árið um kring,“ segir Knútur. Þá geta gestirnir einnig farið að skoða býflugurnar á Friðheimum en þær eru um 600 talsins og notaðar til þess að frjóvga blómin á nýjustu plöntuklösunum.

Matseðil Friðheima er hægt að nálgast á heimasíðunni www.fridheimar.is. Til þess að vera fullviss um að fá borð er vissara að senda póst á undan sér. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert