Súkkulaðibrúnka með Dulce De Leche

Snorri er ekkert að
Snorri er ekkert að "henda" í neitt minna en listaverk. Snorri Guðmundsson

Snorri Guðmundsson er sjálfmenntaður ljósmyndari og ástríðukokkur. Hann deilir eldhúsafrekum sínum á síðunni Snorri eldar þarsem hann nostrar við hvert smáatriði. Snorri er einnig mjög nýjungaglaður og prufar gjarnan nýtt hráefni sem hann rekur augun í við innkaup. Hér fer hann hamförum með niðursoðna mjólk. 

„Ég hafði notað Dulce De Leche sem fyllingu í Alfajores (smákökusamlokur) og vissi að það bragðaðist vel með súkkulaði. Í þetta sinn langaði mig að sjá hvernig það kæmi út „swirlað“ út í brownie. Svipað eins og þegar fólk gerir blondie/brownies,“ segir Snorri ánægður með árangurinn.

„Dulce De Leche karamella er blanda af mjólk og sykri (í þessu tilviki sætri niðursoðinni mjólk) sem er búið að elda hægt yfir langann tíma þar til sykurinn karameliserast og hún er ótrúlega góð út á ís, yfir kökur eða sem fylling í smákökur,“ segir Snorri en hann hafði lesið sér til um ýmsar vafasamar aðferðir við að útbúa góðgætið.


„Ég hef séð uppskriftir þar sem dósin af niðursoðnu mjólkinni er sett heil og óopin í pott fullann af vatni og svo soðin í nokkra tíma, en þá þarf að passa mjög vel upp á að vatnsmagnið fari aldrei niður fyrir dósina því þá getur hún sprungið.  Pant ekki þrífa eftir það eða standa við pottinn þegar það gerist!

Ég kýs frekar að nota aðferðina sem er öruggari að mínu mati, en þá er dósin tæmd í eldfast mót og svo bökuð í vatnsbaði í stærra eldföstu móti í 2 tíma.

Hér nota ég Dulce De Leche út í brownie uppskrift og geri einnig úr henni þynnri sósu en þetta var algjör snilld saman með vanilluís og jarðaberjum.“

- Dulce De Leche -
1 dós sæt niðursoðin mjólk
Ögn af sjávarsalti eftir smekk

  1. Forhitið ofninn í 225° og sjóðið 1 líter af vatni í hraðsuðukatli.
  2. Tæmið innihald dósarinnar í lítið eldfast mót og lokið því vandlega með álpappír.
  3. Setjið litla bökunarformið svo í stærra eldfast mót sem rúmar það minna auðveldlega.
  4. Setjið bæði mótin inn í ofn og hellið svo sjóðandi vatninu í stærra mótið svo vatnið nái rúmlega yfir miðju mótsins með niðursoðnu mjólkinni.
  5. Bakið í 2 klukkustundir en fylgist með vatnsmagninu og bætið við sjóðandi vatni þegar vatnsyfirborðið er farið undir miðju minna eldfasta mótsins.
  6. Látið Dulce De Leche'ið ná stofuhita áður en þið fjarlægið álpappírinn af eldfasta mótinu, bætið við saltinu og hrærið það saman við.  Karamellan á eftir að vera líkari búðing í útliti þegar hún kemur úr ofninum en það þarf einungis að hræra vandlega í henni svo hún líti eðlilega út. Stundum myndast nokkrir litlir klumpar í henni en það er auðveldlega hægt að hræra þá úr, en mér þykir þá auðveldast að færa Dulce De Leche'ið í skál og hita aðeins aftur í örbylgjunni og hræra það þá þar sem það er þá mun mýkra og auðveldara í meðhöndlun.

- Dulce De Leche sósa -
1/2 uppskrift Dulce De Leche
1/4 bolli rjómi + 1-2 msk ef þarf

  1. Hitið rjómann og Dulce De Leche'ið í litlum potti við meðalháan hita og hrærið vandlega saman.  Bætið við 1-2 msk af rjóma ef þið viljið þynnri sósu.

- Brownie -
170 gr ósaltað smjör
3 egg + 1 eggjarauða
1 bolli muscavado sykur (eða púðursykur)
3/4 bolli sykur
2 tsk vanilludropar
1 bolli kakóduft
1/3 bolli hveiti
1/2 bolli súkkulaðidropar
1/2 uppskrift Dulce De Leche

  1. Stillið ofninn á 180° hita og setjið nógu mikið af bökunarpappír í 20x20cm bökunarform svo að hann standi aðeins upp úr sem mun auðvelda að taka kökuna úr forminu þegar hún er tilbúin.
  2. Bræðið smjörið í meðalstórum potti og hrærið því næst venjulega sykrinum og muscavado sykrinum vandlega saman við.
  3. Bætið næst við einu eggi í einu og hrærið þau vandlega saman við.
  4. Bætið næst vanilludropunum saman við ásamt hveitinu og kakóduftinu og hrærið vandlega saman við.
  5. Hrærið súkkulaðidropunum saman við og hellið svo deiginu í bökunarformið.
  6. Notið svo skeið til að blanda helmingnum af Dulce De Leche'inu lauslega saman við deigið á nokkrum stöðum.
  7. Bakið í 40-45 mín neðarlega í ofninum eða þar til tannstöngull kemur að mestu hreinn úr miðju kökunnar.
Mjólkurkaramellan verður hálf bronslituð og gerir kökuna að listaverki fyrir …
Mjólkurkaramellan verður hálf bronslituð og gerir kökuna að listaverki fyrir öll skilningarvitin. Snorri Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert