Í tilefni þess að kvikmynd númer þrjú um Bridget Jones kom nýverið út er tilvalið að rifja upp eldhúshæfni einnar frægustu piparjúnku heims.
Mig verkjaði hreinlega í matreiðsluhjartað þegar vinkona mín Bridget Jones bauð
vinum sínum svo eftirminnilega í mat í kvikmyndinni Bridget Jones‘ Diary (2001). Bridget ætlaði að bjóða upp á kremaða sellerísúpu í forrétt en gerði þau mistök að nota litaðan þráð til að binda saman púrrulaukinn. Ekki fór betur en svo að súpan endaði skærblá og fremur ógeðfelld á bragðið. En mistökin voru þó mun fleiri eins og Bridget einni er lagið. Hún réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur við val á uppskriftum og keypti sér matreiðslubók eftir Michelin-matreiðslumeistarann Marco Pierre White. Uppskriftin inniheldur hálfan lítra af rjóma en eins og Kate Young uppskriftargúru The Guardian, sem velt hefur vöngum yfir uppskriftinni frægu, orðar það svo vel varð súpan „impossibly rich“ sem mætti þýða sem ómögulega feit!
Blá súpa Bridget Jones
Uppskriftin dugar ofan í 6 einstaklinga – mun fleiri ef þú klúðrar
henni!
Soð
1) bein af einum elduðum kjúklingi eða 8 kjúklingavængir eða fjórir kjúklingaleggir (leggir og læri kjöthreinsað)
1 laukur
½ púrrulaukur (græni endinn)
1 gulrót
2 sellerístönglar
1 lúka steinselja á stöngli
5 piparkorn
Súpa
250 g afhýdd seljurót
250 g sellerí
1 laukur
½ púrrulaukur (hvíti hlutinn)
3 msk. smjör
100 g kartöflur
500 ml soð (sjá að ofan)
250 ml rjómi (500 ml ef þú vilt
hafa hana ómögulega feita)
Salt og piparTil framreiðslu
Vorlaukur
6 egg ef vill
Dagur 1
Ef þú ætlar að nota kjúklingabein þarftu ekki að elda þau fyrst þar sem þau eru nú þegar elduð. Ef nota á kjúklingavængi eða leggi skaltu brúna þá á pönnu í nokkrar mínútur yfir miðlungshita.
Saxaðu gróflega grænmetið sem á að fara í soðið. Settu grænmetið í pott með 1,5 lítrum af vatni og láttu suðuna koma upp. Lækkaðu þá í pottinum og láttu malla í 2 klst. með lokinu á. Því næst er lokið tekið af og látið sjóða í klst. og svo slökkt undir pottinum svo soðið kólni.
Sigtaðu hratið frá soðinu og settu í umbúðir og inn í ísskáp eða frysti uns nota á soðið. Í þessu tilviki ísskáp.
Dagur 2
Saxaðu selleríð, seljurótina, púrrulaukinn og laukinn í litla teninga. Bræddu smjörið í stórum
potti og bættu grænmetinu við. Mýktu grænmetið á meðalhita í pottinum en varastu að brúna það. Flysjaðu kartöflurnar og skerðu í bita. Taktu fram soðið, hitaðu það upp og bættu kartöflunum og rjómanum saman við. Láttu suðuna koma upp og helltu þá
innihaldi pottsins yfir grænmetið í hinum pottinum.
Kældu súpuna örlítið og hrærðu hana með töfrasprota. Hér klikkaði Bridget og setti sjóðheita
súpu í matvinnsluvél sem gerði það að verkum að hún skaust upp um alla veggi! Sem er stórhættulegt og auðvelt að brenna sig alvarlega. Kryddaðu svo súpuna með salti og pipar en farðu varlega í það. Þessi súpa er með milt bragð og því skal varast að krydda hana of mikið svo upprunalegt bragð hverfi. Ef þú vilt hafa súpuna alveg silkimjúka skaltu sigta hana og setja hana svo aftur í pott og hita varlega upp aftur.
Súpan er borin fram með hleyptu eggi ef vill. Eggið er sett í botninn, súpunni hellt yfir og loks toppað með ferskum, söxuðum vorlauk.
Ekkert mál, er það nokkuð? Já og þetta var bara fyrsti rétturinn
af þremur sem vinkona okkar ætlaði að elda á afmælinu sínu. Matarboðið endaði í miklum hlátrasköllum, eggjaköku og einhvers konar sultu. Grand Marnier-eftirrétturinn endaði í Grand Marnier í glasi.