Vegan marengs með kókosrjóma

Vegan-marengs með kókosrjóma, jarðarberjum og súkkulaði.
Vegan-marengs með kókosrjóma, jarðarberjum og súkkulaði. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stefán Darri Þórsson segist mæta fordómum vegna fæðuvals síns en það fari þó minnkandi. „Viðhorfið til veganisma er líka að breytast með hverjum mánuðinum sem líður og það til hins betra. Fólk er orðið miklu opnara fyrir nýjum hlutum þannig að ég er bjartsýnn upp á framhaldið.“ Stefán er mikill áhugamaður um matargerð og bakaði þessa glæsilegutertu fyrir nýjan matarvef mbl.is  Milli þess sem hann töfrar fram tertur spilar Stefán handbolta með Stjörnunni og starfar á Gló, þar sem hann segist alltaf vera að læra eitthvað nýtt sem viðkemur matseld og næringu. 

Hefur þú alltaf verið vegan?
Ég gerðist vegan í byrjun nóvember 2015 þannig að það fer að verða komið ár.

Hvað var mesta áskorunin við að verða vegan?
Að gerast vegan var eiginlega miklu auðveldara en ég hafði hugsað mér. Það sem maður þarf að gera er að velja aðeins öðruvísi úr búðarhillunum og breyta þessum týpísku uppskriftum örlítið. Það tekur vissulega smá tíma að venjast þessum breytingum en það er eins og með allar aðrar breytingar. Úrvalið af vegan-vörum er alltaf að verða betra og matsölustaðir út um allt land eru byrjaðir að bjóða upp á vegan-valkosti. Það er virkilega gaman að fylgjast með hvað Ísland er að verða vegan-vænt land.

Hvað finnst þér að fólk þurfi helst að vita um vegan?
Að þetta er mun auðveldara en maður heldur og að vera vegan er ódýrara fyrir budduna sem einmitt margir halda að sé akkurat öfugt. Svo á sama tíma og maður er ekki að drepa saklaus dýr og taka þátt í að styrkja stærsta mengunarvald jarðar þá líður manni svo miklu betur á þessu fæði. Bæði líkamlega og andlega.

Mætir þú vegan-fordómum vegna fæðuvals þíns?
Já stundum kemur það fyrir en það er bara af því að fólk er illa upplýst. Þegar maður útskýrir fyrir fólki á einfaldan hátt um hvað veganismi snýst þá er það fljótt að taka þetta í sátt. Viðhorfið til veganisma er líka að breytast með hverjum mánuðinum sem líður og það til hins betra. Fólk er orðið miklu opnara fyrir nýjum hlutum þannig að ég er bjartsýnn upp á framhaldið.

Hefur marengs alltaf verið í uppáhaldi?
Nei ekki beint í uppáhaldi en eftir að ég varð vegan og áttaði mig á því að ég gæti ekki fengið marengs aftur þá var ég alveg byrjaður að sakna hans smá. Svo þegar það kom til sögunnar að gera marengs úr baunasafa í stað eggja þá var ég ekki lengi að láta á það reyna.

Hvert er helsta trixið við þessa uppskrift?
Þeyta nógu lengi og bæta sykrinum mjög rólega saman við.

Stefán er myndarlegur í eldhúsinu og spáir mikið í matseld.
Stefán er myndarlegur í eldhúsinu og spáir mikið í matseld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Vegan-marengs með kókosrjóma


Botnar

220 g sykur

Heil dós af

kjúklingabaunasafa

2 bollar kornflex

1 tsk. lyftiduft

Rjómafylling

3 dósir af kókosmjólk

smá flórsykur eftir smekk

Nokkrir vanilludropar

250 g fersk jarðarber skorin í bita

Byrjið á að setja kókosmjólkurdósirnar inn í ísskáp.

Hellið baunasafanum af kjúklingabaununum í skál og þeytið á fullum hraða í 10-15 mínútur eða þangað til að hann hefur stífnað aðeins. Bætið síðan sykrinum mjög rólega við á meðan hrærivélin vinnur á fullum hraða. Þetta þeytið þið saman í 15-20 mínútur eða þar til þið getið hvolft skálinni án þess að nokkuð detti úr.

Myljið kornflexið örlítið og hrærið varlega saman við ásamt lyftiduftinu.

Hellið blöndunni á bökunarpappír og mótið eftir þykkt og stærð.

Bakið marengsinn í um 50 mínútur í 150 °C heitum ofni á blæstri. Slökkvið síðan á ofninum og leyfið botnunum að kólna inni í ofninum.

Meðan botnarnir kólna er tilvalið að undirbúa rjómafyllinguna. Takið kókosmjólkurdósirnar úr ísskápnum, fjarlægið þykka hlutann úr, setjið í skál og þeytið. Þeytið í smá stund þangað til að kókosrjóminn er orðinn stífur og flottur. Ég setti smá flórsykur og vanilludropa út í en það er ekki nauðsynlegt. Blandið niðurskornum jarðarberjum saman við.

Setjið jarðarberjarjómann á milli botnanna.

Bræðið suðusúkkulaðið eða annað mjólkurlaust súkkulaði og skreytið kökuna með því og hálfskornum jarðarberjum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert