Geiri Smart heitir nýlegur veitingastaður á Hverfisgötu 30, nánar tiltekið í Canopy-hótelinu sem er í gamla Hjartagarðinum og er hluti af Hilton-hótelkeðjunni. Hart var barist um Hjartagarðsreitinn við Hverfisgötu fyrir nokkru þar til ákveðið var að byggja þar hótel. Byggingin er skemmtileg og næsta sumar verður Hjartagarðurinn vonandi aftur sælureitur ef vel tekst til. Hótelið er byggt í kringum Hjartagarðsblettinn, en þar mun vera hægt að sitja úti og njóta veitinga frá nýjum bistró sem hótelið opnar næsta sumar. Omnom verður með súkkulaðibúð og enn á eftir að leigja út tvö verslunarbil á blettinum, sem opinn er gestum og gangandi, en svæðið er í eigu Reykjavíkurborgar.
Á þaki hússins er stórt rými þar sem stefnt er á að vera með „pop up“-bar yfir sumarið. Hugmyndirnar eru margar og góðar en þangað er springur út er Geiri Smart stífbónaður á neðri hæðinni og býður okkur velkomin.
Við komu á staðinn tekur við notalegt andrúmsloft, þægileg dauf birta og sálartónlist. Strax við innkomu tekur á móti mér þjónn sem er klæddur í dökk jakkaföt og virðist vera yfirþjónninn. Á meðan hann fer og kannar bókunina í þar til gerðri bók kemur annar þjónn og býður fram aðstoð sína. Það er sunnudagskvöld, klukkan hálfsjö og fremur lítið að gera á staðnum. Stuttu eftir að við setjumst kemur annar og feimnari þjónn með tvær flöskur og býður okkur að velja um sódavatn eða venjulegt. Veitingahúsið er vel mannað og stemmingin góð. Hver einasti starfsmaður hefur eitthvað markvisst fyrir stafni en fylgist vel með borðunum í kring. Vökul augu en enginn of yfirþyrmandi.
Umhverfi
Hönnun staðarins er að mörgu leyti óvenjuleg og vísar að einhverju leyti í gamla stuðmannalagið Sirkus Geira Smart. Matseðilinn talar um hliðar A og B og vísar þannig í vínylplötur. Á veggnum við hlið eldhússins er veglegt ljósaskilti sem skiptir um lit og les, Húrra, húrra, húrra sem er lína úr laginu góða. Á afmörkuðum vegg staðarins hanga myndir af glæsilegum konum við íslenska poplist. Konurnar eru mæður liðsmanna Spilverks Þjóðanna sem gaf út Sirkus Geira Smart en svo skemmtilega vill til að þær heita allar Margrét.
Hugmyndin með Geira Smart er enn nokkuð óljós og á köflum langsótt í mínum huga en að hafa sterkan karakter sem setur línuna fyrir allt starf staðarins er sniðugt. Þannig myndast sterkt einkenni staðarins sem starfsfólkið þekkir. Orðaforði og andrúmsloft. Til dæmis auglýsir staðurinn; Geira finnst smart að hittast í hádeginu.
Hönnun staðarins er í höndum Björgvin Snæbjörnssonar hjá Apparat en hann hannar einnig öll herbergi og rými hótelsins. Húsgögnin eru margskonar sem gefa staðnum flippaðra yfirbragð svo ekki sé minnst á skærblátt áklæðið á stólunum og sófunum í básunum undir myndum af mæðrum Stuðmanna. Ég minnist þess hreinlega ekki að hafa séð svo bláa sófa áður. Þeir lyfta staðnum vissulega upp og tóna vel við dökkan viðinn í borðunum, klæðningunni á barnum og gólfinu. Fallega blár litur er ríkjandi og meðal annars á bakvegg eldhússins sem opið er inn í. Kopar og stál er ríkjandi í loftljósum og víðar. Í raun er mjög mörgum efnum, áferðum og munstrum blandað saman með nokkuð góðum árangri þó að á köflum hefði verið betra að einfalda. Sjö tegundir af stólum og sófum er of mikið ofan í mismunandi gólfefni, panel, veggflísar og veggmálverk. Ég verð þó að segja að mest fóru hvítu veggflísarnar fyrir brjóstið á mér. Þær minna helst til of mikið á baðherbergi eða sjúkrahús fyrir minn smekk. Þess fyrir utan er hönnunin vel heppnuð með skemmtilegum tilvísunum hér og þar. Má þá helst nefna málverk á vegg einum innan staðarins sem er endurmálun af veggverki sem prýddi húsgafl í Hjartagarðinum.
Minni borðin eru lítil og nett eins og lenskan er víða. Það er komið með felliborð til að afgreiða matinn. Einnig er boðið upp á bása sem er mjög aðlaðandi og notalegt fyrir hópa.
Borðbúnaðurinn er lágstemmdur enda bæri staðurinn ekki mikið meira flipp. Tauservéttur, einföld glös og fallegir handgerðir leirdiskar. Kokkarnir eru allir eins klæddir sem er fallegt þar sem opið er inn í eldhús og þjónarnir eru einnig í smart fatnaði. Sérpöntuðu kopar ananasglösin eru flott smáatriði sem hafa án efa verið instagrömmuð í bak og fyrir af gestum.
Salernin eru einstaklingssalerni. Lítil og snyrtileg með góðri franskri handsápu. Það er vanmetið hvað góð sápa getur gert fyrir stemminguna.
Einkunn
Þjónusta
Það afgreiddu okkur samtals 8 starfsmenn. Það fannst mér fremur óvenjulegt en kom ekki að sök. Starfsmenn vissu mismikið en þjónninn sem hafði mest af okkur að segja var einstaklega faglegur. Hann var augljóslega lærður þjónn og mér til mikillar gleði var hann laus við tilgerð og ákafar fingrabendingar sem er gjarnan lenska á veitingahúsum. Þjónninn hafði greinilega gaman af vinnu sinni og hafði þægilega nærveru. Hann þekkti greinilega matseðilinn vel og hafði smakkað alla rétti. Það finnst mér alltaf sterkur leikur og gefur ábendingum hans um leið mun meira vægi. Móttökustjórinn var einnig mjög brosmildur og barþjónarnir báru af í fagmennsku og áhuga á eigin starfi.
Afgreiðslutími var stuttur og við beðin um að láta vita hvenær fyrsti rétturinn mætti koma. Eldhúsið las tímasetningar vel og réttirnir komu fram með mjög hæfilegu bili.
Hvernig tekist er á við mistök finnst mér oft segja einna mest um þjónustuna. Einn rétturinn var mjög þurr og því var kallað á þjóninn. Hann bauð okkur að velja eitthvað annað og var mjög almennilegur. Eftir að máltíðinni lauk kom svo kokkurinn fram og ræddi stuttlega við okkur um réttinn sem skilað var og hvort sá næsti hefði ekki verið góður. Það var faglegt og smart. Matreiðslumaðurinn bætti við: „við gerum betur næst,“ sem mér fannst auðmjúkt og fallegt.
Matur
Maturinn virðist ekki fylgja neinni ákveðinni stefnu heldur taka mið af því fyrst og fremst hvaða hráefni er ferskast hverju sinni og kemur úr nærumhverfi staðarins. Réttunum er skipt upp í A og B hlið en þó er ekki um forrétti og aðalrétti að ræða. Mér finnst þetta undarlegt flækjustig sem ég sé ekki hverju á að skila. Hugmyndin er sú að þetta séu smáréttir og A sé léttari en B. Mælt með að þeir svöngu taki 3-4 rétti en réttirnir kosta á bilinu 2500 til 5200 svo að það getur verið ansi dýrt að borða sig vel saddan. Þá getur verið hagsýnna að taka samsettan matseðil úr eldhúsinu. Hann skartar fimm réttum og kostar 11.500 krónur. Það er vissulega ekki ódýrt en sanngjarnt miðað við gæði og þá staðreynd að setið er til borðs í hátt í tvo tíma. Hvað er á seðlinum hvert sinn er ekki leyndarmál svo ekki er um hefðbundin óvissuseðil að ræða heldur er hægt að spyrja út í innihald seðilsins sem er mjög sniðugt. Ég borða til dæmis ekki grísakjöt og gat fengið þá til að skipta um rétt.
Þetta er mikill matur og í raun ef fólk er ekki mjög soltið myndi einn A og einn B réttur líklega duga.
Við komu er boðið upp á heimabakað súrdeigsbrauð með stökkri skorpu og verbenasmjöri en smjörið er unnið úr olíu með járnjurt. Mjög létt og gott.
Fyrsti rétturinn var glóðaður urriði, með einiberjum, fjörujurtum, heslihnetum, og skeljasoði. Þetta var sísti rétturinn að mínu mati og ég myndi ekki panta hann aftur. Fiskurinn sjálfur var nokkuð bragðlítill en sýrða gúrkan sem kom með var of frek fyrir minn smekk. Skeljasoðið og fjörujurtirnar fóru of langt út í sjó og því var þessi réttur engan veginn að mínu skapi og myndi líklega henta betur þeim sem líkar við þara og hrogn en rétturinn er toppaður með hrognum. Hrogn eru óvinir mínir og því myndi ég seint flokkast sem markhópur fyrir réttinn. Mælt var með léttu freyðivíni með réttinum sem lyfti honum upp eins og mögulegt var en því miður náði þessu réttur engu flugi þó framsetningin hafi verið falleg.
Réttur tvö var bökuð vatnsmelóna með tómötum frá Sólheimum, ferskosti og túnsúru. Vatnsmelónan var frískandi og súrurnar bæði fallegar og bragðgóðar. Sýran í tómötunum vann vel á móti súrunum og sætunni en tómatarnir voru kannski í það minnsta þroskaðir til að ríma hér við. Það besta við réttinn var þó klárlega ferskosturinn sem minnir helst á jógúrtsósu og er falinn undir melónunni. Hann var mjög góður og batt réttinn vel saman. Góður réttur sem ég myndi panta aftur en finnst þó helst til of dýr miða við magn en ég hugsa að það sé engu að síður þó nokkur vinna bak við gerð hans. Þá helst ostagerðina.
Réttur þrjú var sérréttur sem ekki er á matseðlinum en ætti að vera það. Steikt eggjabrauð með íslenskum villisveppum, gnalling osti og sætu ediki. Gnalling osturinn er blanda af hvítmyglu- og rauðkíttiosti en edikdressingin á salatinu rífur bragðið upp. Mjög kremaður réttur sem mig langar að kalla „comfort food“ en því miður er ekkert gott orð yfirt það á íslensku. Þetta er vissulega fitandi réttur en skammturinn er fullkominn. Mig hefði ekki langað í meira en alls ekki minna. Það er oft galli á feitum réttum að skammtarnir eru of stórir svo að þér er jafnvel orðið nokkuð ómótt áður en yfir lýkur. Hér er jafnvægið fullkomið. Kaldur bjór eða rauðvín fullkomnar svo réttinn.
Réttur fjögur var gufusoðinn þorskur með svörtum hvítlauk, gerjuðum kartöflum (froðukennt), hvítum lauk og skessujurt. Fiskurinn er borinn fram í fallegri leirskál sem fyllt er með froðukenndum kartöflujafning. Kartöflurnar eru unnar þannig að þær eru geymdar í rjómasprautu og sprautað yfir réttinn. Þær verða því léttar og froðukenndar. Ég kann ekki efnafræðina á bak við þetta en bragðið og áferðin eru til fyrirmyndar. Rétturinn er í ágætis jafnvægi fyrir utan laukinn. Það er of mikið af honum. Heil lauklög sem gerðu lítið fyrir mig. Ég hefði gjarnan viljað sjá annað grænmeti þarna og eitthvað stökkt til að brjóta upp áferðina á réttinum. Góður réttur sem hefði verið mjög góður ef laukurinn hefði ekki gert árás.
Réttur fimm var Wagyu-naut með rauðrófu, shiitake-sveppum, rauðlauk og þunnri piparsoðsósu. Þessi réttur var mér að skapi. Léttur og og laus við þungt og kolvetnaríkt meðlæti. Þetta nautakjöt hentar vel eftir að hafa borðað kartöflufroðuna og eggjabrauðið þar sem kartöflu- og fituþörf hafði verið uppfyllt. Að því leyti er matseðillinn vel samsettur. Á þessum tímapunkti var ég þó búin að fá sveppi og lauk áður og hefði þegið annað grænmeti en það var þó ekkert stórmál þar sem um aðra sveppi var að ræða, rauðlauk og svo kom rauðrófan sterk inn. Kjötið var fullkomlega steikt og niðursneitt svo það voru engir sinar.
Réttur sex. Síðast en alls ekki síst kom einn besti eftirréttur sem ég hef smakkað lengi. Ísinn er gerður úr 30% sýrðum rjóma, toppaður með aðalbláberjum, lakkrís, karamellu og súkkulaðikurli. Þess fyrir utan var rétturinn svo fallegur með fjólu á toppnum en mér finnst að íslensk veitingahús megi gjarnan nota meira af ætum blómum í skreytingar. Þennan rétt mun ég fá mér aftur. Helst alla daga!
Mér fannst áhugavert að ekkert krydd var á borðum en ég komst að því að kokkarnir fullkrydda matinn en hægt er að biðja um krydd. Þetta er áhugavert í ljósi þess að ég bæti venjulega kryddi við allt en gerði það ekki þarna.
Vínseðillinn er til fyrirmyndar en einungis er boðið upp á vín úr köldu loftslagi. Hugsanlega þar sem leitast er við að kaupa sem mest úr nærumhverfi og staðurinn hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Ekkert húsvín er á boðstólum heldur sérvalin vín sem hægt er að velja um í glösum. Það ódýrasta er á 1400 kr. Kokteilarnir eru áberandi góðir þó það hafi farið fyrir brjóstið á mér að sjá verðið á einföldum og tiltölulega ódýrum kokteil Apperol Spritz (apperol, freyðivín og sódavatn) en hann kostaði 2400 krónur – það sama og flóknir kokteilar sem innihalda mun meiri vinnu og dýrari hráefni. Smáatriði sem gjarnan mætti laga eru rörin sem notuð eru. Þau eru of löng og hörð. Það þyrfti að klippa þau í samræmi við kokteilglösin.
Barþjónarnir voru mjög flinkir og fróðir. Ég mæli sérstaklega með kokteil sem heitir You sexy thing. Hann inniheldur ekki sírópslíkjör heldur fersk hindber og er mjög ferskur. Til að toppa upplifunina er kveikt í rósmarínstöng til að fá lykt með kokteilnum.
Sérkunnátta í drykkjum er augljós en þeir búa einnig til sitt eigið romm og leitast við að nota sem mest af ferskum innihaldsefnum. Þannig pressa þeir sjálfir ananassafa í kokteilana sína svo fátt eitt sé nefnt og sérinnfluttu bronsananasglös undir einn kokteila sinna. Fagmennska Ölbu Hough yfirvínþjóns og barþjónanna eykur upplifunina verulega.
Samantekt
Ég myndi mæla með veitingarstaðnum og myndi líklega láta mér nægja 2 rétti næst og þá myndi ég væntanlega prufa eitthvað nýtt. Þjónustan er gífurlega góð og staðurinn er mjög flippaður útlitslega og því skemmtileg viðbót í veitingahúsaflóruna sem hefur oft á tíðum verið einhæf útlitslega. Sumir mundu segja að Geiri smart væri sundurleitur. Mér finnst hann hress þrátt fyrir stólaleikinn. Matseðillinn er ekki endilega í ætt við mitt uppáhald en hráefnin eru fersk, réttirnir nokkuð einfaldir það er að segja ekki of mörg innihaldsefni og hvert hráefni á að standa fyrir sínu sem er góð stefna. Sveppir og laukur eru í stóru hlutverki. Ég saknaði annars grænmetis á borð við gulrætur, blómkál eða rótargrænmeti en það á kannski bara við um þá rétti sem ég pantaði. Geiri er ungur og mun væntanlega þróast enn frekar á næstu mánuðum og vonandi auka á sérkenni sín. Of mörg íslensk veitingahús eru alltof keim lík - og í raun svo líka að oft gæti sami rétturinn hafa komið frá nokkrum veitingahúsum í grenndinni.
Veitingahúsið Geiri Smart er vel mannað og auðmýkt og sköpunargleði ræður ríkjum. Það mætti gjarnan vera víðar. Það verður spennandi að fylgjast með þróun staðarins í held og hvernig Hjartagarðurinn lifnar við með hækkandi sól.