Súkkulaðilæri með vanillu og möndlum

Úlfar er
Úlfar er "villingur" að upplagi og elskar villbráð. Styrmir Kári
<span>Stóra bókin um villibráð eftir Úlfar Finnbjörnsson er komin aftur, talsvert aukin og endurbætt, eftir að hafa verið ófáanleg um árabil. Veiðimenn og matgæðingar hafa beðið lengi eftir þessum tíðindum enda seldist bókin upp á sínum tíma og þykir vera grundvallarrit um allt sem snýr að verkun og nýtingu villibráðar.</span> <span><br/>Það þekkja flestir Úlfar Finnbjörnsson, sem er stundum nefndur villti kokkurinn, en hann hefur unnið á helstu veitingahúsum landsins og er vel þekktur fyrir matreiðsluþætti sína sem hann hefur stýrt við góðan orðstír. Hann hefur kennt matreiðslu, rekið veisluþjónustu, starfað sem blaðamaður og verið í íslenska kokkalandsliðinu. Hér deilir hann með okkur óvenjulegri uppskrift af gæsalærum sem inniheldur bæði súkkulaði og möndlur.</span>

Súkkulaðilæri með vanillu, súkkulaðisósu og möndlum

fyrir 4 

8 gæsalæri, helst hamflett
salt og nýmalaður pipar
4 msk. olía
2 laukar, smátt saxaðir
2 vanillustangir, klofnar eftir endilöngu
1-2 dl romm
¾ dl hvítvín
1 dl möndlur, afhýddar
1 dl rúsínur
½ chili-aldin, smátt saxað
1 tsk. salt
¾ tsk. nýmalaður pipar
60 g súkkulaði, 50-70%, rifið

Kryddið gæsalæri með salti og pipar og steikið upp úr olíu í potti í 2 mín. á hvorri hlið. Setjið allt sem er í uppskriftinni nema súkkulaði í pottinn og sjóðið við vægan hita undir loki í 1 ½-2 klst. eða þar til lærin eru orðin mjúk undir tönn. Bætið þá súkkulaðinu saman við og hrærið í þar til það hefur samlagast. Eftir það má sósan ekki sjóða. Berið fram með t.d. hrísgrjónum sem soðin hafa verið í kókosmjólk, salati og brauði.

mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert