Þessi græni og orkumikli safi er uppistaðan í góðum morgni ásamt kröftugri jógaæfingu hjá Sólveigu Þórarinsdóttur jógakennara og eiganda jógastöðvarinnar Sólir. Hún pressar góðan slatta í vikubyrjun sem hún geymir á flöskum til að flýta fyrir sér á virkum dögum.
Áttu þér eitthvert leynivopn í eldhúsinu?
Kókosolía, hún virkar í allar uppskriftir, alltaf. Heilnæmasta varan sem við á heimilinu erum öll hrifin af, hvort sem er í þeytinga og í bakstur, til steikingar eða þegar það er poppað og svo er hún auðvitað líka notuð óspart á húð og í hár.
Hvað er það besta sem þú færð?
Ég er flókin kona með einfaldar þarfir, popp er og verður uppáhaldið mitt þar til yfir lýkur. Vinkona mín benti mér á nýverið að kreista límónu yfir poppið sem poppar það upp um nokkur þrep, ekkert sérlega fágað en klárlega staðreynd.
Hefur þú borðað „yfir þig“ af einhverju í gegnum tíðina?
Þegar ég byrjaði að búa til þeytinga (boost) þá var skyr oftar en ekki uppistaðan. Skyr mun ég því sennilega ekki borða aftur eftir almenna misnotkun á því og „overdoze” á mjólkurvörum hér áður fyrr.
Hvaða matur vekur ljúfar minningar?
Allt brauðmetið sem mömmur og ömmur baka norðan heiða. Vöfflurnar hennar mömmu og gömlu lummurnar hans pabba láta mig alltaf fá hlýtt í hjartað.
Hefur þú einhvertíma farið á undarlegan kúr?
Nei, ég hef aldrei prófað neinn kúr en ég lifði á fljótandi fæði í örfáar vikur áður en ég gifti mig því ég var nýbökuð móðir sem vildi komast í kjól. Það myndi ég ekki endurtaka eða mæla með þó að það skilaði tilsettum árangri.
Safinn sem ég ætla að deila með ykkur er upphafið á hverjum morgni hjá mér. Hann er útbúinn í Huram Slow juicer-vél sem hjálpar til við að varðveita næringarefnin betur. Ég set á hann á glerflöskur fyrir vikuna og set í kæli. Ég endurnýti tómatflöskur frá Sollu nöfnu minni. Með því að hafa mikið magn af sítrónu eða límónu í uppskriftinni fæ ég náttúrulegt rotvarnarefni svo hann dugar mér í að minnsta kosti 5 daga. Hratið eða trefjarnar nýti ég stundum í hrökkkex eða brauðbakstur. Ég nota alltaf lífræn hráefni sé þess kostur.
Græni jógasafinn Sól
1 poki spínat eða grænkál
6 græn epli (súr)
4 stk. sellerí stilkar
1/2 gúrka
1-2 stk. límóna
1 stk. engiferbútur (stærð eftir smekk)
1 box mynta
Allt sett í djúsvélina og skellt í flöskur. Passið að flöskurnar séu mjög hreinar. Það getur verið gott að hella sjóðandi vatni í flöskurnar til að sótthreinsa þær.