Himneskar bollakökur Evu Laufeyjar

Ingibjörg Rósa er dyggur stuðningsmaður og aðstoðakokkur móður sinnar.
Ingibjörg Rósa er dyggur stuðningsmaður og aðstoðakokkur móður sinnar. Karl Petersson

Evu Laufeyju Kjaran Hermannsdóttur þarf vart að kynna. Hún hefur á stuttum tíma orðið einn ástsælasti sjónvarpskokkur landsins enda með einlæga og skemmtilega framkomu í bland við ómótstæðilegar uppskriftir. Á fimmtudaginn kemur út önnur matreiðslubók hennar sem ber nafnið Kökugleði Evu. Myndirnar eru einstaklega girnilegar en þær tók Karl Petersson en hann hefur sérhæft sig í matarljósmyndum um árabil og starfaði lengi á Gestgjafanum.

Karl Petersson

Himneskar vanillubollakökur með karamellukremi

250 g sykur

140 g smjör, við stofuhita

3 egg við stofuhita

250 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

2 dl rjómi

2 tsk. vanilla extract eða vanillusykur (það er líka gott að nota fræin úr vanillustöng)

Bollakökuform

Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Þeytið saman smjör og sykur í um það bil þrjár mínútur, bætið einu og einu eggi saman við. Þeytið vel á milli. Sigtið saman hveiti og lyftiduft, bætið hveitiblöndunni, vanillu og rjómanum saman við eggjablönduna og þeytið mjög vel í nokkrar mínútur þar til blandan verður silkimjúk. Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið við 180°C í 15-18 mínútur. Kælið kökurnar mjög vel áður en þið smyrjið á þær krem. Uppskriftin gefur 18-20 bollakökur. 

Karamellusmjörkrem   

230 g smjör, við stofuhita

500 g flórsykur

2 tsk. vanilluduft eða dropar

150 g hvítt súkkulaði

4 msk. söltuð karamellusósa + meiri til þess að skreyta kökurnar

Aðferð:

Þeytið saman smjör og flórsykur, bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og hellið saman við og þeytið áfram. Bætið vanillu og saltaðri karamellusósu í kremið í lokin og þeytið þar til kremið er silkimjúkt. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á kökuurnar, skreytið kökurnar gjarnan með saltaðri karamellusósu og nóg af henni.

Kökurnar hennar Evu eru sannkallað listaverk.
Kökurnar hennar Evu eru sannkallað listaverk. Karl Petersson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka