Sölufélag íslenskra garðyrkjumanna hrinti nýverið í gang skemmtilegum og hollum leik til að hvetja landsmenn til að borða meira grænmeti. Fólk er hvatt til þess að taka myndir af frumlegum og skemmtilegum grænmetisbökkum og deila á samfélagsmiðlum.
„Leikurinn gengur út á að fá börn til að borða meira grænmeti og hvetja foreldra til að hafa grænmetið sýnilegra fyrir börnum að staðaldri sem vonandi leiðir til þess að þau borða meira af því. Sérstaklega á þessum svokallaða úlfatíma milli 5 og 7 þegar svo mörg börn eru svöng eftir langan dag í leikskóla eða skóla,“ segir Kristín Linda Sveinsdóttir markaðastjóri hjá Sölufélagi garðyrkjumanna.
Hugmyndin er einnig ætluð til þess að hvetja til fleiri góðra samverustunda með börnunum og tengja hann grænmetis- og ávaxtaneyslu. Samkvæmt ráðleggingum Landlæknis ætti fólk að borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag. Þar af a.m.k. 200 grömm af grænmeti og 200 grömm af ávöxtum. Einn skammtur er sem dæmi einn meðalstór tómatur, 7 cm langur gúrkubiti og 1 meðalstór gulrót.
„Það eru nú ekki allir sem hafa tíma til að búa til glæsileg listaverk, við vitum það en það er samt um að gera að taka þátt í leiknum og skera bara grænmetið niður á einfaldan hátt á disk eða í skál, taka mynd og senda inn á instragram vegginn sinn merkt #matarlist. Svo njóta þess að borða það með börnunum, " segir Kristín Lind en vinningarnir í leiknum eru ekki af verri endanum og ættu að vera góður hvati. Kynna má sér leikinn enn betur inni á íslenskt.is Leiknum lýkur 15. nóvember.