Þorskhnakki og humarvorrúllur

Humarvorrúllurnar eru einstaklega girnilegar.
Humarvorrúllurnar eru einstaklega girnilegar. Lind Hrafnsdóttir
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins voru heiðurshjónin Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason heimsótt en það reka veitingahúsið Gott í Vestmanneyjum. Von er á þriðju matreiðslubókinni frá þeim hjónum en hér deila þau með okkur stórkostlegri uppskrift af þorskhnakka og humarvorrúllum sem henta vel sem forréttur.

„Í matarboðinu buðum við upp á frábæran ferskan fisk sem við fáum af höfninni daglega til okkar á GOTT. Við ákváðum því að vera með tvo sjávarrétti,“ segir Berglind. Gestir þeirra voru vinahjón þeirra Þórey Friðbjarnardóttir og Benóný Benónýsson og eru þau æskuvinir þeirra hjóna. „Siggi og Binni struku saman heim af leikskólanum sem krakkar og við Þórey reyndum að grafa saman holu til Kína. Við höfum brallað margt í gegnum tíðina og gaman að fá þau í mat.“ 
Þórey og Berglind gæddu sér á tertu eftir matinn.
Þórey og Berglind gæddu sér á tertu eftir matinn. Lind Hrafnsdóttir

Humarvorrúllur 
1pk. hrísgrjónadeigsblöð (springroll)

humar (4-5 halar á mann)

1 búnt fersk basilíka

2 hvítlauksrif

30 g sólþurrkaðir tómatar í olíu

2 msk. maísmjöl

maldonsalt

sólblómaolía til að djúpsteikja upp úr

Maukið basilíkulauf, hvítlauk og sólþurrkaða tómata saman í matvinnsluvél.

Smyrjið mauki ofan á humarinn og pakkið inn í hrísgrjónadeigsblöðin eins og sýnt er á pakkningunum (springroll pakkanum).

Blandið 2 msk. af köldu vatni saman við maísmjölið svo úr verði blautt deig sem notað er til að líma saman hrísgrjónadeigsblöðin þegar þeim er pakkað saman svo ekki opnist við djúpsteikingu.

Djúpsteikið við 180 gráður þar til gullinbrúnt og stráið síðan smá maldonsalti yfir rúllurnar.

Gott að bera fram með japönsku majónesi eða aioli-sósu og salati.

Lind Hrafnsdóttir
Þorskhnakki með villisveppaskel og kartöflumauki
800 g þorskhnakki

150 g hreint smjör, við stofuhita

40 g þurrkaðir villisveppir (gjarnan blandaðar tegundir)

1 sítróna, safinn

4-5 dl brauðrasp

4 bökunarkartöflur

100 g hreint smjör

100 ml rjómi

1 msk sjávarsalt

Kartöflumauk – aðferð

Skrælið kartöflur og skerið í grófa bita

Sjóðið í um 25 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar vel mjúkar og hellið vatni af.

Maukið kartöflurnar með því að stappa þær vel. Blandið smjörinu saman við og síðan rjómanum og saltinu.

Villisveppaskel – aðferð

Þeytið smjörið upp í hrærivél í 10 mínútur eða þar til það er orðið loftkennt.

Setjið þurrkuðu villisveppina í matvinnsluvél og búið til duft úr þeim.

Setjið villisveppaduftið saman við smjörið ásamt sítrónusafa.

Bætið brauðraspinu út í og setjið um 100 g af maukinu ofan á smjörpappír og annan smjörpappír yfir og fletjið út þunnt lag. Kælið.

Þegar smjörplatan er orðin hörð, takið þá út og skerið í hæfilega stærð sem passar ofan á fiskinn.

Þorshnakkinn eldaður – aðferð

Hitið ofninn í 170 gráður.

Setjið smá ólífuolíu yfir fiskinn og kryddið með salti og pipar.

Setjið sveppaskelina ofan á fiskinn.

Bakið fiskinn í ofni í 12-15 mínútur, fer eftir þykktinni á fiskinum.

Berið fram með kartöflumaukinu.

Benni og Siggi hafa verið vinir frá því í barnæsku.
Benni og Siggi hafa verið vinir frá því í barnæsku. Lind Hrafnsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert