Stórkostlegt steikarsalat Hillstone

Steikarsalat þetta er líklega besta steikarsalat í heimi! Heilt fjall …
Steikarsalat þetta er líklega besta steikarsalat í heimi! Heilt fjall er því fljótt að hverfa. http://www.bonappetit.com/

Þetta steikarsalat er „life changing“ eða lífsbreytandi. Ég man enn hvernig bragðlaukarnir tóku kohnís af gleði þegar ég smakkaði það fyrst á hinum geysivinsæla veitingastað Hillstone. Salatið er með taílensku yfirbragði og inniheldur sætleika, súrt bragð og ferskan keim af mintu og basil í bland við hnetubragð og chillí. Vissulega má sleppa steikinni ef fólk vill ekki kjöt.

Þið getið því ímyndað ykkur hamingjuna sem heltók hjarta mitt þegar Bon Appetit komst yfir leyniuppskriftina frá Hillstone og deildi henni með lesendum sínum. Þegar ég geri salatið nota ég bara spínat og salatblöndu þar sem það er ekki endilega hlaupið að því að finna rétt salöt. Það virtist ekki koma að sök þar sem afraksturinn var hreint út sagt truflaður! Þetta tekur eftir til vill dáldin tíma að útbúa en það er þess virði. Ekki efast - bara elda!

Innihald fyrir 4

Steikin

  • 1½ cm ferskt engifer, afhýtt og saxað mjög smátt
  • ¼ bolli sojasósa
  • 3 msk. hrásykur
  • 2 msk límónusafi
  • 1 msk. fiskisósa
  • ½ tsk. nýmalaður pipar
  • ½ tsk hvítlauksduft
  • ¼ bolli olífuolía
  • 1 msk sesamolía
  • 350 g góðar nautasteikur (filet mignon) steikur um það bil 2,5 cm þykkt
  • Sjávarsalt

Dressing

  • ¼ bolli ferskur límónusafi
  • ¼ bolli sterkt chillí mauk (svo sem sambal oelek)
  • ¼ bolli jarðhnetuolía eða grænmetisolía
  • 2 msk. fiskisósa
  • 2 msk. hrásykur
  • 1 msk. hunang
  • 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
  • Salt eftir smekk

Salat og samsetning

  • 60 g óeldaðar ramen eða lo mein núðlur
  • salt
  • ½ tsk. sesamolía
  • 1 stórt mango, afhýtt og skorið í bita
  • ½ poki klettasalat
  • ½ poki watercress-salat
  • 2 miðlungs gulrætur, rifnar fínt
  • 2 skalotlaukar saxaðir
  • 2 bollar rifið savoy-kál
  • 1 bolli kirsuberjatómatar skornir í tvennt
  • 1 væn lárpera, skorin í teninga
  • ½ bolli kóríander, saxað
  • ½ bolli basillauf, söxuð
  • ¼ bolli mintulauf, söxuð
  • ¼ bolli ristaðar kókosflögur
  • ¼ bolli ristaðar salthnetur, smátt saxaðar. Gott er að vera með meira af salthnetum til að setja ofan á salatið áður en það er borið fram.
  • Límónubátar til að bera fram með salatinu

Undirbúningur

Steik

Hrærið engifer, sojasósu, hrásykri, límónusafa, fisksósu, pipar og hvítlauksdufti í lítilli skál uns sykurinn hefur leyst upp. Hrærið rösklega og hellið varlega saman við ólífuolíunni og því næst sesamolíunni. Þá er marineringin tilbúin. Setjið hana í lokanlegan poka ásamt steikunum. Gætið þess að sem minnst af lofti sé í pokanum. Geymið steikurnar í kæli í marineringunni í 6-12 tíma.

Hitið grill eða grillpönnu upp í miðlungshita. Fjarlægið steikurnar úr marineringunni og þerrið á pappír. Kryddið með örlitlu af salti.
Grillið steikurnar og snúið þeim á 2 mínútna fresti eða þar til þær hafa lokast að utan og hitamælir sýnir að þykkasti hluti steikarinnar hefur náð 50 gráðu hita fyrir medium rare steikingu eða um 8–10 mínútur í heildina. Takið þá kjötið af pönnunni og látið það hvílast í 10 mínútur á skurðarbretti. Það má vel grilla kjötið deginum áður.

Dressing

Hrærið límónusafa, chillímauk, jarðhnetuolíu, fiskisósu, sykur, hunang og hvítlauk í litla skál. Smakkið og bætið við salti eftir smekk. Dressinguna má vel gera einum degi áður. 

Salat og samsetning

Eldið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum. Saltið þær og kælið í köldu vatni svo þær eldist ekki áfram. Setjið núðlurnar í skál með olíu svo þær límist ekki saman. Bætið við mangó, salati, gulrótum, skalotlauk, tómötum og dressingunni. Hrærið þessu vel saman. Saltið ef þarf.  Bætið því næst við steik, lárperu, fersku kryddi, kókosflögum og salthnetum.

Deilið salatinu jafnt á fjóra diska og reynið að stafla því upp. Bætið svo við salthnetum á toppinn og límónubáti til hliðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert