Hildur Rut Ingimarsdóttir gaf nýverið út sýna fyrstu matreiðslubók Avocado en eins og nafnið gefur til kynna innihalda allar uppskriftirnar avíkadó. Bókin er hluti af vel heppnuðu lokaverkefni Hildar í Margmiðlunarskólanum en hún skrifar bókina, tekur myndirnar og brýtur hana um. Hildur hefur lengi haft unun af því að elda en uppskriftirnar eru mjög fjölbreyttar og girnilegar.
„Ég byrjaði mjög ung að hafa áhuga á mat og matargerð og fékk oft að leika mér í eldhúsinu, elda og baka kökur. Ég hafði engan áhuga á sælgæti en fannst aftur á móti mjög spennandi að fara út að borða og panta mér ýmsa rétti og voru hvítlauksristaðir sniglar í miklu uppáhaldi.“
Það liggur því beinast við að spyrja Hildi hvernig hið fullkomna avókadó sé valið?
Ég vel mér dökkgrænt avókadó (ekki svart því þá er það líklega ofþroskað) og mæli með því að kreista það ekki fast þegar það er valið því þá myndast dökkir blettir í holdinu en þá sker ég ávallt í burtu. Ef það er þroskað gefur það lítillega eftir. Mjög gott ráð er að skoða undir stilkinn. Ef liturinn er grænn þá er það þroskað og tilbúið til neyslu. Ef liturinn er ljósgrænn og erfitt er að ná stilknum af þá er það ekki nógu þroskað en ef liturinn er orðinn brúnn er það orðið ofþroskað.
Kom aldrei til greina að skíra bókina Lárpera?
Ég hugsaði mikið um það hvort ég ætti að nota orðið lárpera, avókadó eða avocado. Ég valdi að nota orðið avocado bæði af fagurfræðilegum ástæðum og ég nota það meira í daglegu tali.
Eru aðrar bækur í kortunum?
Já, það kemur vel til greina og ég er byrjuð að skoða næstu bók. Ég er komin með ýmsar hugmyndir en ég vil ekki upplýsa það strax.
Pabbi þinn gaf út bókina en þú og systir þín starfið hjá fyrirtækinu hans. Hvernig gengur að vinna með pabba sínum ?
Við systurnar erum í hlutastarfi hjá fyrirtækinu hans pabba, Betri lausnum, og tökum að okkur einstök verkefni. Dagvinnan mín er hjá Pennanum Eymundsson á fyrirtækjasviði og systir mín er í tölvunarfræði í HR. Annars finnst okkur báðum frábært að vinna með pabba og það gengur vel.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Þessi spurning er erfið af því að ég hef mjög fjölbreyttan matarsmekk og mér finnst svo margt gott. En mér finnst fátt skemmtilegra en að prófa nýja rétti og gera tilraunir í eldhúsinu. Í augnablikinu finnst mér svakalega gott að fá mér risotto með nóg af parmesan og jafnvel að setja avocado í það og tacos með risarækjum og avókadó, þá vil ég hafa það vel sterkt. Mér finnst líka mjög ljúft að fá mér nautasteik og gott rauðvínsglas með. Fékk eina bestu steik sem ég hef smakkað á Abe & Louie's í Boston um daginn. Mæli með því en það er líka alltaf gott að elda nautasteik heima.
Hvað myndir þú aldrei borða?
Mér finnst næstum allur matur góður en ég er þó ekki hrifin af íslenskum þorramat eins og súrsuðum hrútspungum, hákarli og öðrum súrmat. Það mun ég líklegast aldrei borða.
Uppáhaldsveitingahús?
Ég á mér nokkra uppáhaldsveitingastaði hérna á Íslandi en mér finnst margir mjög góðir. Nafnlausi pitsustaðurinn á Hverfisgötu 12, sushi á Osushi, brunch á Coocoo‘s nest og nýi fiskistaðurinn Messinn verða oft fyrir valinu þessa stundina.
Hvað borðar þú mörg avókadó á dag?
Avókadó er fastur punktur í minni daglegu fæðu en að meðaltali borða ég a.m.k. eitt avókadó á dag. Ótrúlegt en satt þá verð ég aldrei leið á því. Ég fæ mér t.d. mjög oft stappað avókadó á hrökkbrauð eða á flatköku yfir daginn, salt og pipar og smá sítrónusafa.