Linda Björk Ingimarsdóttir matarbloggari á EatrRvk.com tók upp nýjan sið fyrir skemmstu þar sem fjölskyldan heldur svokallaðan kjötlausan mánudag og borðar þá aðeins grænmetisrétti. Huggulegar haustsúpur verða þá gjarnan fyrir valinu. Ég er búin að elda þessa súpu og get vel mælt með henni – hún er nærandi og örlítið sterk. Stórgóð með smá sýrðum rjóma eða grísku jógúrti (eða vegan hreinu jógúrti), hana má frysta eða eiga í allt að viku í ísskápnum.
„Ég einfaldlega elska þessa súpu! Hún er allt sem ég vil að súpa sé, ódýr, bragðgóð, einföld, saðsöm og hægt að frysta og eiga fyrir köld vetrarkvöld til að fá hlýju í kroppinn – ásamt því að vera vegan. Ég hef gert þessa fyrir afmæli, sem aðalrétt og sem forrétt og alltaf gleður hún. Kannski er það gyllti liturinn sem minnir á sól eða sand sem veitir manni þessa extra hlýju.“
Innihaldsefni
1 msk. matarolía
1 púrrulaukur, skorinn smátt
2-3 hvítlauksrif
1 – 1 1/2 tsk. grænt karrýmauk
1/4 tsk. cumin
1 tsk. turmarik
1/2 tsk. kóríander krydd
2 lárviðarlauf
1 stór kartafla
1 stór sæt kartafla
200 gr. rauðar linsubaunir
1 lítri vatn (meira ef hún er of þykk)
3-4 grænmetisteningar
1 dós kókosmjólk
salt og pipar
cayenne-pipar eftir smekk
3 msk. sítrónusafi
Til að toppa með
Ristaðar kókosflögur,
kóríander, saxað
lime í sneiðum
Leiðbeiningar
Sjóðið linsurnar samkvæmt leiðbeiningum og setjið til hliðar
Laukurinn settur í pott ásamt olíu og steikt saman við lágan hita
Skrælið kartöflurnar og skerið í bita, bætið þeim saman við laukinn ásamt rest af hráefnum og látið malla þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar
Takið lárviðarlaufin úr súpunni
Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar er töfrasproti eða kartöflustappari notaður og allt maukað vel niður
Smakkið til og bætið við kryddi ef þið viljið
Athugasemdir
Gott er að hafa aukavatn með grænmetisteningi tilbúið ef þið viljið hafa súpuna þynnri, eða setja meiri kókosmjólk. Berið fram með ristuðum kókosflögum, kóríander og lime-sneiðum.