Innbökuð nautalund Ingibjargar

Innbökuð nautalund sækir stíft á hamborgarhrygginn sem jólamáltíð.
Innbökuð nautalund sækir stíft á hamborgarhrygginn sem jólamáltíð.

Ingibjörg Ásta Pétursdóttir gaf út bókina Mensa fyrr á þessu ári en margir muna eftir veitingahúsinu Mensa í Lækjargötu. Ung að árum flytur Ingibjörg til Frakklands og lærir þar að elda franskan mat. Hún dvelur í Marokkó um skeið og tileinkar sér þar matarmenningu heimamanna löngu áður en kúskús sást í íslenskum eldhúsum. Þegar hún flutti til Íslands kom hún á fót helsta tískustað höfuðborgarinnar á sínum tíma, Mensu, þar sem frönsk bökugerð og gómsætt bakkelsi voru í hávegum höfð. 

Í stutt máli sagt er Ingibjörg Ásta ofurhetja í eldhúsinu! Það lá því beinast við að leita til hennar eftir hátíðlegri uppskrift fyrir jólin. Þessi uppskrift að innbakaðri nautalund er úr bókinni hennar góðu.

Ingibjörg Ásta er ástríðukokkur sem hefur gert garðinn frægan víða …
Ingibjörg Ásta er ástríðukokkur sem hefur gert garðinn frægan víða um land með einstakri matargerð sinni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

300 g bökudeig

1,5 kg nautalund

Egg til að pensla með

250 g ferskir flúðasveppir

4 stk. skallottlaukur

½ msk. Herbes de Provence-krydd (blandaðar jurtir frá Provence/Frakklandi)

Sjávarsalt

Svartur pipar

Steinselja

1 dl olía

Fyrir átta

Nautalundin er snyrt og þurrkuð með eldhúsrúllubréfi. Kryddið hana með salti, pipar og 1 tsk. af Herbes de Provence-kryddi.
Steikið lundina við háan hita á pönnu með smávegis af olíunni í 2 mínútur á hvorri hlið. Kælið hana. Skerið laukinn smátt og einnig sveppina.
Steikið lauk og sveppi á pönnu, kryddið með salti, pipar, steinselju og restinni af Provence–kryddjurtunum. Látið kólna.
Takið bökudeigið og fletjið út á borði með kökukefli og hafið flötinn það stóran að þið getið pakkað kjötinu inn í það.
Fyrst eru steiktu sveppirnir og laukurinn lagðir á deigið, kjötið fer þar ofan á og þá er öllu pakkað inn.
Penslið með eggi svo deigið festist saman. Þá er deiginu snúið við og það sett á bökunarplötu. Gott er að hafa bökunarpappír undir.
Penslað yfir deigið með eggi og loks skreytt með deigafgöngum. Bakið innpakkaða kjötið í um það bil 30 mínútur fyrir miðjum ofni við 200° hita.
Þá er kjötið aðeins rautt eða medium rear í miðjunni en betur bakað eða well done út til endanna.
Látið kjötið jafna sig í 5 mínútur áður en það er skorið niður í sneiðar. Hafið góðan hníf við höndina og passið að allir fái sneið með bæði kjöti og deigi.
Berið fram með gratíneruðum kartöflum og sósu. Grænmeti eins og „Tomates provençales“ er kjörið sem meðlæti með innbakaðri nautalund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert