Svona hægeldar þú hangikjöt

Dröfn bakar hangikjötið inn í ofni.
Dröfn bakar hangikjötið inn í ofni.

Það er kjörið að hlera Dröfn á Eldhússögum varðandi hvernig best er að elda hangikjöt, hinn þjóðlegasta af jólaréttum okkar Íslendinga. Það kann að koma einhverjum jólasælkerum á óvart að öfugt við útbreidda hefð sýður Dröfn ekki hangikjötið.

„Jóladagur líður hátíðlegur við spilamennsku og konfektát en stundum höfum við farið í skautaferð á Tjörninni í rökkrinu og jólakyrrðinni síðla jóladags,“ útskýrir Dröfn. Að kvöldi jóladags er svo fjölskyldan hefðinni samkvæmt með hangikjöt í matinn, nema hvað.

„Reyndar eru börnin mín ekkert yfir sig hrifin af hangikjöti en mér finnst varla jól án þess að hangikjötsilmurinn líði um húsið á jólunum,“ segir Dröfn.

„Mér þykir hefðbundið meðlæti ómissandi með hangikjötinu. Það er uppstúfur, grænar baunir, heimatilbúið rauðkál og laufabrauð. Með þessu er að sjálfsögðu borið fram jólaöl. Jólaölið blanda ég á eftirfarandi hátt, malt og appelsín til helminga og ég byrja alltaf á því að hella appelsíninu. Til að muna það á milli ára er auðvelt að hugsa að appelsín er á undan malti í stafrófinu!,“ segir Dröfn og hlær við. „Síðan blanda ég örlitlu kóki út í jólaölið, mér finnst það gera góða blöndu enn betri.“

Þrátt fyrir miklar vinsældir Eldhússagna er Dröfn hógværðin uppmáluð þegar hún er innt eftir leyndarmálinu að fullkomlega meyru hangikjöti til hátíðabrigða um jólin.

„Ég er nú bara leikmaður í eldhúsinu en ég las mér til um að besta leiðin til að elda saltað kjöt væri að elda það í ofni og láta kjötið þannig malla í sínum eigin safa. Ég hægelda því hangikjötið í ofni, líkt og hamborgarhrygginn. Þannig finnst mér kjötið verða ákaflega meyrt og safaríkt. Það eina sem þarf að hafa í huga við slíka matreiðslu er að kjötið verður saltara fyrir vikið þar sem lítið salt fer út í soðið eins og við vatnssuðu. Það er því gott að hafa það í huga þegar kjötið er valið og velja fremur saltminna kjöt en hitt,“ segir Dröfn Vilhjálmsdóttir, höfundur Eldhússagna, að endingu.

Svona hægeldar þú hangikjöt

Ég keypti 1,2 kg úrbeinað hangilæri, vafði því inn í álpappír og stakk í það kjöthitamæli.
Ég setti það svo á grind með ofnskúffu undir því það getur lekið úr hangilærinu og í ofn sem er búið að forhita í 130 gráður.
Ég eldaði hangikjötið þar til kjarnhitinn var búinn að ná 65 gráðum, það tók næstum því þrjá klukkutíma.
Útkoman var meyrt og ljúffengt hangikjöt.

Dröfn Vilhjálmsdóttir matgæðingur sýður ekki hangikjötið eins og tíðkast víða.
Dröfn Vilhjálmsdóttir matgæðingur sýður ekki hangikjötið eins og tíðkast víða.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert