Tartalettuform er ómissandi að eiga á jólum. Hægt er að möndla ljúffenga rétti úr afgöngum af hamborgarhrygg, hangikjöti, rjúpum og ýmsu fleiru með því að skella í tartalettur. Um að gera að láta hugmyndaflugið og hæfileikana til að gúggla uppskriftir ráða för.
Til dæmis er mjög gott að hreinlega brytja kjötið út í sósuna og setja í tartatalettuformið. Það þarf ekki að vera flókið. Ekki er verra að setja t.d. sætar kartöflur og gular baunir með sé kjötið kalkúnn. Hér á eftir fylgja tvær góðar uppskriftir.
„Úff, það er með hálfum huga sem ég gef lesendum þessa uppskrift, en ætli flestar fjölskyldur eigi ekki einhverjar svona skrítnar matarhefðir sem tengjast nostalgíu og við viljum ekki fyrir nokkurn mun sleppa,“ segir Sigurlaug Jónasdóttir en hún deildi þessari skemmtilegu uppskirft með lesendum Morgunblaðsins fyrir jólin fyrir nokkrum árum. Uppskriftin stendur enn fyllilega fyrir sínu.
1 dós ORA-fiskibollur
tómatsósa nautakraftur
rækjur
hveiti og smjör fyrir jafninginn
tartalettuform
Byrjið á því að baka upp sósu með smjöri og hveiti og safanum frá fiskibollunum ásamt vatni. Bætið tómatsósu út í jafninginn sem og nautakrafti. Þegar jafningurinn er orðinn þokkalega þykkur og bragðgóður er að bæta út í smátt söxuðum fiskibollum úr dós (ORA að sjálfsögðu), láta malla vel og bæta því næst rækjum út í.
Þá er að hita tartaletturnar (frá Bernhöftsbakaríi), það er best að snúa þeim á hvolf, þá hitna þær betur.
Svo er bara að draga fram fallegan sparidisk (það eru nú jólin), raða tartalettunum á diskinn, setja sjóðheitan jafninginn ofan í þær og bera strax fram. Það er best að drekka appelsín og maltöl með þessu. Nú og þeir sem treysta sér ekki í þetta geta bara sett afganginn af jólamatnum út í tartaletturnar sínar, sem er alltaf gott.
Hér er svo uppskrift af hamborgarhrygg í tartalettum og hamborgarhryggssamloka úr þættinum Korter í kvöldmat.
Fyrsta skrefið er að skera sætar kartöflur í litla bita og steikja á pönnu með nóg af olíu. Á meðan þær malla er hvítlaukur saxaður gróft, sveppirnir skornir niður og öllu bætt á pönnuna, kryddað með salti og pipar og hrært vel saman.
Tartaletturnar eru settar inn í 180° heitan ofn og um leið og þær eru komnar inn er slökkt á ofninum, þetta er fyrst og fremst gert til að hita tartaletturnar.
Pela af rjóma er bætt á pönnuna með kartöflunum og það látið malla. Ef púrtvín eða sérrí finnst á heimilinu er ekki síðra að hella einum 10 dropum út í til að bragðbæta.
Kjötið er skorið í grófa bita og þegar rjóminn er farinn að þykkna talsvert er því bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman. Tartaletturnar eru teknar úr ofninum og fylltar með góðgætinu af pönnunni. Hér er gott að hafa vel af vökvanum af pönnunni með til að þær verði eins „djúsí“ og þær geta mögulega orðið.