Stórlækka verð á jólabjór

Bjórútsala hefur ekki sést áður í janúar.
Bjórútsala hefur ekki sést áður í janúar. AFP

Vífilfell hefur ákveðið að stórlækka verð á þeim jólabjór sem enn er til, til að sporna gegn matarsóun – eða í þessu tilviki bjórsóun en hingað til hefur jólabjór sem ekki hefur selst verið fargað. „Undanfarið hefur matarsóun verið töluvert í umræðunni og fólk almennt sammála um að draga þurfi úr henni,“ segir Hilmar Geirsson vörumerkjastjóri hjá Vífilfelli.

Jólabjórútsala 

„Í byrjun janúar undanfarin ár hefur komið upp umræða um förgun á jólabjór og hvort hægt sé að fara aðrar leiðir til að minnka þessa matarsóun. Reglurnar í ÁTVR eru þannig að árstíðabundnar vörur eins og jólabjór eru einungis til sölu í ákveðinn tíma og eftir þann tíma dettur bjórinn úr sölu í öllum vínbúðum. Þá er óseldur bjór sendur aftur til birgja og honum fargað. Jólabjórinn sem við erum með til sölu í ÁTVR er á þessum tímapunkti í mjög góðu ástandi og um fullgóðan bjór að ræða sem rennur ekki út fyrr en næsta haust. Til þess að koma í veg fyrir þessa sóun á matvælum og í leiðinni koma til móts við neytandann höfum við ákveðið að lækka verðið á jólabjór, frá okkur í ÁTVR, þar til hann dettur úr sölu eða klárast. Vonandi verður þetta til þess að neytendur sjái sér hag í því að drekka jólabjór aðeins lengur og minnkar þannig í leiðinni magnið af  bjór sem þarf að farga," segir Hilmar en verðlækkunin á við um allan jólabjór sem fyrirtækið framleiðir, svo sem Thule-, Einstök- og Víking-jólabjór. Verðlækkanirnar eru misjafnar eftir því hvaða bjór og stærð er um að ræða en algeng lækkun er um 60-110 kr. stykkið.  

Hilmar Geirsson vörumerkjastjóri vonast til að farga þurfi sem minnst …
Hilmar Geirsson vörumerkjastjóri vonast til að farga þurfi sem minnst af bjór í ár.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert