Fljótleg humarpítsa með grænum eplum

Fljótleg humarpizza sem ég grenja alltaf undan. Hún er svo …
Fljótleg humarpizza sem ég grenja alltaf undan. Hún er svo góð! Tobba Marinós
Þessa pítsu hef ég haldið upp á lengi og gerir reglulega. Ef ég hef ekki tíma í að útbúa deigið kaupi ég tilbúið heilhveitideig í Bónus eða Nettó. Það er meira að segja búið að fletja það út á bökunarpappír. Ekki er verra að drekka gott hvítvín með. Sítrónu-hvítlauksolían er svo toppurinn! Það má vel bæta við ferskum picollo-tómötum ef fólk er í stuði.
Pítsudeig í eina væna pítsu
400-600 gr skelflettur humar
1 grænt epli
200 g Grænkál (eða klettasalat eða spínat)
100 g Pistasíuhnetur
3 dl pítsusósa (heimagerð eða eða keypt, þá kaupi ég helst Whole Cherry Tomato pastasósu frá Scala)
Parmesan eftir smekk
Ostur eftir smekk (Brauðostur, mozarella, pítsaostur - bara það sem til er. Ég frysti ostaafganga, ríf niður og nota.)
3 msk smjör
Fersk basilika eftir smekk 
Parmesansalt (frá Nicolas Vahé - fæst t.d hjá Jóa Fel eða Fakó.)
Pipar
Hvítlaukur
Olía
Sítróna

Hvítlauksolía
2 dl góð olívuolía
2 marin hvítlauksrif
1 msk rifinn sítrónubörkur.
Leiðbeiningar
  1. Fletjið deigið út á bökunarpappír og dreifið sósunni yfir..
  2. Rífið ostinn niður og dreifið yfir botninn. Ég notaði 17% Sveitabita og ferskan mosarella.
  3. Humarinn er hreinsaður og þurrkaður.
  4. 3 msk af smjöri eru bræddar á pönnu ásamt tveimur smátt söxuðum rifjum af hvítlauk. Látið krauma í 2 mínútur og því næst fer humarinn út í.
  5. Humarinn er létt steiktur í um 2 mínútur og létt saltaður með parmesansaltinu dásamlega.
  6. Humrinum er hellt í sigti og en vökvinn settur í sér skál. Grænkálið er saxað og það hrært vel saman við vökvann og loks er restinni af vökvanum hellt af. Grænkálið verður meira djúsí ef það fær smá olíu eða smjör fyrir bakstur.
  7. Bakið botninn í 12 mínútur á 200 gráðu hita með aðeins sósunni, tómötunum og ostinum.
  8. Eftir 12 mínútur er hnetunum, grænkálinu og humrinum bætt á og bakað á grilli í aðrar 2-3 mínútur uns pítsan fer að gyllast.
  9. Pítsan er nú tekin út og ferskum eplaskífum ásamt ferskum parmesan bætt við. Saltið og piprið og toppið með ferskum basil. Hellið að lokum örlítilli olíu yfir.

    Ábending! Grænkálið er gott að væta í olíu eða smjöri fyrir bakstur svo það verði ekki eins og harðar flögur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert