Ég elska mexíkóskan mat og í raun allt með kóríander og salsasósu. Mexíkóskar matarmiklar súpur eru í miklu uppáhaldi en mér leiðist hversu mikið viðbætt „rusl“ er gjarnan í þeim á borð við sykraðar chillí- eða salsasósur eða mikið unna matvöru. Þessi súpa er hins vegar fljótleg, holl og laus við sykur og óþarfa. Það má vel sleppa kjúklingnum og setja nýrnabaunir eða aðrar baunir í staðinn eða auka við grænmetismagnið. Mér finnst hún alls ekki síðri án kjúklings.
Fyrir 6
1 laukur, smátt saxaður
2 rauðar paprikur, smátt saxaðar
3 vænar gulrætur, smátt saxaðar
2 dósir hakkaðir tómatar (lesið utan á dósina til að varast viðbættan sykur)
3 msk. tómatpúrra
2 lífrænir teningar, kjúklinga, nauta eða grænmetis
800-1000 ml vatn
1 eldaður kjúklingur eða 600 g eldað kjúklingakjöt (bringur) – má skipta út fyrir baunir
125 gr rjómaostur
Cajun bbq krydd til að krydda kjúklinginn með – guðdómlega gott krydd (frá Pottagöldrum)
1/3 tsk. chili-flögur í kvörn
2 msk. olía
Til að toppa súpuna
Rifinn ostur
Nachos
Ferskt kóríander, saxað
2 miðlungs avókadó, í sneiðum
Steikið laukinn og gulræturnar í potti við miðlungshita þar til laukurinn verður glær og gulræturnar mýkjast.
Bætið þá paprikunni við og steikið í um 5 mín.
Því næst fara tómatarnir, tómatpúrran, teningarnir og vatnið saman við.
Látið malla við miðlungshita í 15 mínútur.
Rífið á meðan niður kjúklinginn með höndunum eða tveimur göflum og bætið út í súpuna.
Þá fer chili-ið út í ásamt rjómaostinum.
Látið malla í 15 mínútur.
Berið fram ásamt meðlæti til að toppa súpuna.
Súpan er jafnvel betri daginn eftir.