Egg, spínat og ostur er ljúffeng blanda! Það kannast allir við það að vera í tímaþröng á morgnana og ná ekki að útbúa morgunmat. Þessar hollu eggjamúffur innihalda prótein, vítamín og alls kyns hollustu en lítið af kolvetnum. Ef þú vilt bæta kolvetnum við máltíðina væri tilvalið að borða til dæmis eina ristaða heilhveitibrauðsneið með. Uppskriftin er af síðunni hurrythefoodup.com sem gengur út á fljótlegan morgunverð án kjötmetis. Að útbúa þennan rétt (6 stk.) tekur aðeins um 25 mínútur en hver múffa inniheldur innan við 90 hitaeiningar.
Þessar múffur má vel útbúa í vikubyrjun og geyma í kæli og grípa með sér í vinnuna eða setja í nestisboxið.
Fljótlegur lágkolvetnamorgunverður
6 stk. eggjamúffur
Innihald:
1 paprika – þinn uppáhaldslitur
3 vorlaukar
1 tómatur eða 4 cherry tómatar
6 egg
½ tsk. salt
50 g rifinn ostur
Lúka af spínati, má sleppa
Hitið ofninn upp í 200 gráður.
Skolið grænmetið og saxið smátt.
Setjið eggin í skál og hærið vel ásamt salti og osti.
Hrærið grænmetinu saman við.
Olíuberið formin og hellið eggjablöndunni jafnt í þau.
Bakið í miðjum ofninum í 15 – 18 mínútur.
Ath. það er líka gott að setja smá ost ofan á hverja eggjablöndu fyrir bakstur eða bæta við kryddi eftir smekk.