Erna bakar sláttuvélar, fíla og bíla fram á nótt

Erna og Ari ásamt börnunum sínum sem öll hafa fengið …
Erna og Ari ásamt börnunum sínum sem öll hafa fengið stórkostlegar afmælistertur að hættu Ernu. Úr einkasafni

Erna Kristín Ottósdóttir einkaþjálfi hefur dásamlegan metnað fyrir afmælistertum og hefur mikinn húmor fyrir þessari tímafreku iðju. Erna býr ásamt manninum sínum Ara Frey Skúlasyni landsliðsmanni í fótbolta og börnunum þeirra þremur í Belgíu. „Við erum sem stendur búsett í Lokeren í Belgíu þar sem maðurinn minn er að vinna, en vorum áður í Svíþjóð og Danmörku," segir Erna sem hefur í nægu að snúast með tvo stráka sem eru 5, 3 og hálfs, og litla stelpu sem er nýorðin 1 árs.

„Þegar ég var sirka 8 ára bjó ég í USA, og mamma fór á Wilton kökuskreytinganámskeið, sem mér fannst alveg STÓR merkilegt dæmi, og beið spennt í hvert skipti sem mamma kom heim með listaverkin sem hún gerði á námskeiðinu. Öll afmæli eftir það var aðalspennan kakan sem mamma myndi gera. Ég er svo heppin að eiga yngri systur sem er 6 árum yngri, þannig ég fékk að njóta spennunnar langt fram á unglingsár þó ég væri sjálf orðin aðeins of töff fyrir svona kökur," segir Erna sem hefur haldið spenningnum við í sinni fjölskyldu.

„Dagsdaglega baka ég ekki mikið, þó svo að kryddbrauð og bananabrauð renni alltaf mjög ljúft ofan í liðið. Ég er hinsvegar ekki mikið í kökubakstri þegar ekki eru afmæli framundan. “

Heltekin af sláttuvélum

Þegar börnin voru 1 og 2 ára valdi ég þema út frá uppáhalds bíómynd eða sjónvarpsefni, eða í tilfelli prinsessunnar, uppáhaldsdýrið, sem er kanína. 3 ára eru þau svo farin að geta ákveðið sjálf hvað þeim finnst spennandi, og það er eiginlega langskemmtilegasta áskorunin, að gera það sem þau vilja,"  segir Erna sem hefur fengið hinar undarlegustu beiðnir en eitt árið var sláttuvél það seina sem kom til greina. 

Sláttuvélin fræga.
Sláttuvélin fræga. úr einkasafni
Takið eftir handfanginu. Erna lætur ekkert stoppa sig.
Takið eftir handfanginu. Erna lætur ekkert stoppa sig. úr einkasafni

„Yngri sonur minn á afmæli í júlí, og mánuðina fyrir afmælið sitt var barnið heltekið af sláttuvélum! Í hvert skipti sem hann heyrði í sláttuvél rauk hann út í glugga eða út í dyr og vildi fara út að sjá, og ef við vorum í bílnum og hann sá sláttuvél, var hamingjan þvílík að það var einsog við værum í tívolí! Þess vegna kom ekkert annað til greina en sláttuvélakaka og þema þegar kom að afmælinu.“

Hver er galdurinn við vel skreytta tertu?

„Galdurinn er að gefa sér nógan tíma í skreytingarnar, og reyna að vera ekki í stressi. Mér finnst líka alltaf langbest að gera smjörkremið kvöldið áður en ég ætla að skreyta, til að geyma það í ísskápnum yfir nótt (eða í nokkra tíma að minnsta kosti, gera þá kremið að morgni og skreyta um kvöldið), því of mjúkt smjörkrem er rosalega leiðinlegt að vinna með. Svo tek ég þá kremið út úr ísskápnum og læt það standa í sirka klukkutíma áður en ég byrja að skreyta. Annað sem mér finnst mikilvægt er að byrja alltaf á að smyrja þunnu lagi af kremi yfir alla kökuna til þess að það "límist" svo betur þegar maður byrjar að sprauta, og sleppa við mylsnu í skreyttri kökunni.“

Aðspurð um hvort einhver terta hafi misheppnast hrapalega hlær Erna. „Hingað til hef ég verið svo heppin að það hefur engin af þeim verið algjör horror, en sú sem var erfiðust hingað til var Fríllinn (Fíllinn úr Bangsímon), því eyrun voru algjör martröð að festa á kökuna og fá þau til að standa, og ég misreiknaði örlítið stærðina á ísskápnum við gerðina á kökunni, og þurfti á endanum að skera ranann af, og líma hann aftur á fyrir veisluna.“ Þrátt fyrir hæfilegt drama heldur Erna einna mest upp á umrædda tertu þegar hún er spurð um uppáhalds afmælisafrekin. „Úff þessi er erfið! Ég held samt að Fríllinn og Minions séu uppáhalds, því þær voru mesta áskorunin. Minions kökuna gerði ég regnbogaköku, sem var alveg vinna útaf fyrir sig, og tók langan tíma.“ 

Frílinn var of stór í ísskápinn og því var raninn …
Frílinn var of stór í ísskápinn og því var raninn skorinn af en settur aftur á fyrir afmælisboðið. úr einkasafni

Hin þolinmóða móðir viðurkennir að þetta sé tímafrek iðja þó vissulega sé það vel þess virði. „Ég ætla ekkert að ljúga því, oftast sit ég fram á nótt við þetta, kvöldið fyrir veisluna! En af því mér finnst þetta svo skemmtilegt þá finn ég mér alltaf tíma í þetta, og byrja undirbúninginn með því að googla hugmyndir 2-3 vikum áður en ég baka kökuna. Þá hef ég nógan tíma til að vera búin að ákveða í hausnum hvernig kakan á að vera, og kaupa allt sem ég þarf í hana. Kökuna baka ég svo alltaf deginum áður en ég skreyti hana, til að renna ekki út á tíma, og þurfa að skreyta heita köku, sem gengur bara alls ekki," segir Erna hrikalega hress í Belgíu enda er fyrsta prinsessu afmælið yfirstaðið og þó nokkuð í næsta.

Kindin krúttlega var vinsæl eitt árið hjá drengjunum.
Kindin krúttlega var vinsæl eitt árið hjá drengjunum. úr einkasafni
Minions karlarnir úr samnefndri kvikmynd.
Minions karlarnir úr samnefndri kvikmynd. úr einkasafni
Spiderman í stuði.
Spiderman í stuði. úr einkasafni
Drekinn er mjög smart og hefur án efa tekið sinn …
Drekinn er mjög smart og hefur án efa tekið sinn tíma. úr einkasafni
Fyrsta afmælisterta dóttur Ernu en hún varð eins árs fyrir …
Fyrsta afmælisterta dóttur Ernu en hún varð eins árs fyrir skemmstu. úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert