Morgunverðar-sushi kann að hljóma frekar miður en ekki hætta að lesa. Þetta er í raun algjör snilld og einstaklega skemmtileg leið til að fá börnin til að borða morgunverð. Nú eða sem kvöldverð. Ekki síst ef börnunum finnst sushi spennandi en finnst fiskurinn eitthvað slepjulegur en þá má vel bjóða upp á þennan rétt þegar aðrir á heimilinu borða sushi.
Að útbúa þessa snilld er í raun sáraeinfalt og stórskemmtilegt. Sérstaklega kannski fyrir yngri börnin sem vilja vera eins og foreldrarnir og borða með prjónum. Það eina sem þú þarft að gera er að afhýða banana, smyrja hann með jógúrt, skyri, ab-mjólk eða hverju sem þér dettur í hug (samt ekki majonesi).
Síðan tekur þú morgunkorn, múslí eða eitthvað með skemmtilegri áferð og veltir smurða banananum upp úr því.
Síðan skaltu skera bananann í bita og loks skreyta hvern bita með fallegu beri.
Flókið er það ekki.