Chido Mexican Grill heitir „íslenskur“ staður í Danmörku sem selur vandaðan mexíkóskan skyndibita. Tveir staðir eru í Árósum en þriðji staðurinn var opnaður nýlega, að þessu sinni í Álaborg.
Þeir Guðmundur Óskar Pálsson og Helgi Kristinn Halldórsson kynntust í meistaranámi í viðskiptum í Árósum og ákváðu að sameina hugvit sitt og reynslu og opna keðju veitingastaða, en Helgi er einnig lærður kokkur. Þeim félögum fannst vanta í dönsku flóruna góðan mexíkóskan skyndibitastað þar sem áhersla er lögð á ferskan mat unninn á staðnum, og allt frá grunni.
„Við opnuðum fyrsta staðinn í janúar 2015 í Árósum. Þessu var afskaplega vel tekið þannig að við opnuðum annan fyrir ári. Nú búin að opna þriðja staðinn, í Álaborg. Við erum að færa út kvíarnar og erum að horfa til þess að opna í fleiri borgum í Danmörku og horfum m.a. til Kaupmannahafnar,“ segir Guðmundur. Staðurinn í Álaborg virðist falla í kramið og löng biðröð myndaðist fyrir utan á opnunardeginum fyrir rúmri viku.
Guðmundur segir að þeir félagar hafi strax ákveðið að hafa mikil gæði á matnum. „Þetta er skyndibiti en við búum allt til á staðnum á hverjum degi og gerum allar sósur frá grunni og hægeldum kjötið. Þannig það er meira lagt í þetta en venjulegan skyndibita.“
Þú ert Íslendingur í Danmörku að selja mexíkóskan mat. Af hverju?
„Það var lítið um hann, eiginlega ekkert um mexíkóskan skyndibita hér,“ segir hann og útskýrir að þeir hafi báðir búið í Bandaríkjunum sem hafi haft áhrif á hvers konar Mexíkómat þeir elda.
„Þetta er mexíkóskur skyndibiti í smá Kaliforníustíl.“
Eru Danirnir vitlausir í þetta?
„Já, það gengur vel og nú erum við að opna okkar þriðja stað. Það er mikið að gera á báðum stöðunum í Árósum,“ segir Guðmundur en mest er um að fólk taki matinn með sér heim.
Hvaðan kemur nafnið Chido?
Guðmundur hlær. „Þetta þýðir kúl á mexíkósku slangri. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var það bara ein góð google-leit þar sem gúgglað var „cool mexican slang“ og þetta þýðir kúl. Þetta hljómar ágætlega og virkar.“
Á ekkert að opna á Íslandi?
„Við erum alveg að skoða það. Það er erfitt að finna almennilegt veitingahúsnæði niðri í bæ en við erum með augun opin.“
Hvað er besti rétturinn?
„Vinsælast er Holy Guacamole sem er burrító með kjúklingi og miklu guacamole. Ég myndi fá mér El Barrio með hægelduðu nautakjöti og auka guacamole,“ segir Guðmundur og er rokinn, enda í nógu að snúast í veitingabransanum.
12 tómatar (Roma-tómatar góðir í þetta og ef fólk hefur tíma getur verið gott að taka kjötið úr)
2 rauðlaukar
2 bollar fínsaxað kóríander
3 lauf hvítlaukur
1 msk. ólífuolía
½ rauður chili
2 tsk. Cholula hot sauce original
2 tsk. Cholula hot sauce chili garlic
3 tsk. Worcestershire (vegan-útgáfa svo allir geti fengið sér – það er ekki með ansjósum)
1 lime
salt
pipar