Hægelduð chili-kássa sem fær hjartað til að slá

Girnilegt er það og bráðhollt.
Girnilegt er það og bráðhollt. The Kitchn

Það er fátt meira viðeigandi í frosthörkum undanfarinna daga en heitur pottréttur og þessi hér er alveg hreint upplagður. Hann er í senn bragðmikill og einfaldur að gera en leyndarmálið á bak við góðan pottrétt felst einmitt í því að leyfa honum að malla vel og lengi. Svo er hann dálítið sterkur eins og chili-pottréttir eiga til að vera þannig að hjartað ætti að taka aukaslag af hamingju.

Þess má einnig geta að hann er vegan en fyrir harðkjarna kjötætur er lítið mál að bæta nokkrum vel völdum kjötbitum saman við.

Hægeldað vegan linsubauna-chili

Fyrir 6-8 manns

  • 400 gr. grasker, skorið í bita
  • 1 meðalstór laukur, saxaður
  • 1 meðalstór rauð paprika, söxuð
  • 2 hvítlaukgeirar, saxaðir
  • 600 ml vatn
  • 1 dós af maukuðum tómötum
  • 1 dós af svörtum baunum, hellið vökva og skolið baunirnar
  • 1 dós nýrnabaunir, hellið vökva og skolið baunirnar
  • 150 gr þurrkaðar linsubaunir
  • 2 msk. chili-duft
  • 1 msk. cumin
  • 1 msk. ólífuolía
  • 2 msk. sjávarsalt
  • 1/4 tsk. ferskur svartur pipar
  • Ferskt kóríander og niðurskorið avókadó – til að bera fram með réttinum

Aðferð:

Setjið öll hráefnin í pott (nema kóríanderið og avókadóið), helst úr pottjárni og látið suðuna koma upp. Hrærið reglulega í. Lækkið hitann vel og látið malla í 6-8 klukkutíma á mjög lágum hita þar til linsubaunirnar eru orðnar lungamjúkar.

Borðið með bestu lyst og notið avókadóið og kóríanderið til skreytinga.

Það spillir sjaldnast matarlystinni að hafa svona dásemd fyrir augum.
Það spillir sjaldnast matarlystinni að hafa svona dásemd fyrir augum. The Kitchn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert