Sjónvarpskonan Sirrý er fyrirmynd margra í mörgu og skyldi engan undra. Hún er dugleg að deila sniðugum ráðum og hugmyndum á samfélagsmiðlum en nú er það plokkfiskurinn.
„Frábært ráð til að nýta matinn betur (og njóta hans til fulls) er að setja afganginn af plokkfiski í tartalettur,“ segir Sirrý á facebook-síðu sinni. Það þýðir auðvitað að við hin verðum að prófa en hér er um að ræða uppskrift frá Grími kokki sem löngum hefur séð landanum fyrir úrvals plokkfiski.
Í uppskriftinni sem Sirrý vísar til og deilir er afgangsplokkfiskur settur í tartalettuform og gratínostur, bernaise-sósa og fersk steinselja yfir.
Við fáum ekki betur heyrt en að það sé sjálfur Siggi Gísla eða Sigurður Gíslason matreiðslumaður sem útbýr tartaletturnar sem hann kallar plokkfisk í sparibúningi. Sigurður og eiginkona hans, Berglind Sigmarsdóttir, eiga veitingastaðinn GOTT í Vestmannaeyjum sem slegið hefur í gegn og kom einmitt út samnefnd bók fyrir jólin. Berglind er jafnframt höfundur metsölubókanna Heilsuréttir fjölskyldunnar þannig að hér er fólk sem kann til verka.
Við mælum því heilshugar með plokkfiski í sparibúningi að hætti Sigga Gísla, sem vill svo skemmtilega til að er bróðir Gríms kokks. Við leyfum okkur að fullyrða að það sé gaman í matarboðum á þeim bænum.