Hægt er að flækja einfalda skyrköku á ótal vegu en stundum er einfaldleikinn langbestur og þessi uppskrift klikkar ekki. Hægt er að henda í þessa köku á 10 mínútum eða svo og best er hún þegar hún hefur fengið að standa góða stund inni í kæli þannig að þetta er hinn fullkomni eftirréttur sem hægt er að undirbúa með góðum fyrirvara.
Tilbrigðin eru óteljandi. Hér notum við vanilluskyr og jarðarber. Við höfum líka leikið okkur með bláber og eiginlega alls konar ber. Súkkulaðibitar, karmellukrem, sulta og nánast hvað sem er kemur til greina og svo er líka hægt að skipta kexinu í botninum út fyrir oreo-kex.
Uppskrift
- 500 ml vanilluskyr
- 500 ml rjómi
- 1 pakki Homeblest-kex
- 200 gr. smjör
- jarðarber
Aðferð
- Brjótið kexið og bræðið smjörið í potti. Setið kexið saman við smjörin og hrærið vel. Setjið síðan mulninginn í krukkurnar sem þið ætlið að nota og passið að það sé sirka jafnt í krukkumun. Geymið eins og 1/5 til að strá yfir skyrkökuna. Það er ekki nauðsynlegt en samt gott.
- Þeytið rjómann og blandið síðan skyrinu rólega saman við. Þegar blandan er orðin jöfn og fín skulið þið setja hana ofan í krukkurnar og passa að það sé jafnt. Uppskriftin ætti að duga í 6-8 krukkur.
- Setjið afganginn af kexmulningnum ofan á og skerið niður jarðarberin og sáldrið yfir.
- Geymið í kæli í góða stund til að botninn verði stökkur.
- Berið fram í krukkunum.
Hægt er að setja lok á krukkurnar og geyma í nokkra daga í kæli.
Ljósmynd / The Home Journalist
Hægt er að nota jarðarber eins og í þessari uppskrift eða hvað annað sem ykkur dettur í hug.
Ljósmynd / The Home Journalist