Mjólkursamsalan fer mikinn í vöruþróun þessa dagana. Fyrir skemmstu sendu þeir frá sér lakkrísskyr frá KEA sem selst ákaflega vel en á næstu dögum koma tvær nýjar kolvetnaskertar bragðtegundir frá Skyr.is með jarðarberjaböku og crème brulee. Frumlegheitin fá að njóta sín hjá vöruþróunarteyminu en meðal flippuðustu hugmynda sem hafa komið upp þar eru skyr með poppi og lifrarpylsutoppur.
Björn S. Gunnarsson vöruþróunarstjóri segir mikið lagt upp úr vöruþróun en árlega koma um 25 nýjungar á markað hérlendis, sem geta verið nýjar vörur, nýjar bragðtegundir í núverandi vöruflokkum, endurnýjun umbúðahönnunar o.s.frv. „Síðustu árin höfum við einnig stóraukið umsvif okkar erlendis, m.a. í skyrsölu og því hefur fylgt mikil vinna í vöruþróun með samstarfsaðilum okkar erlendis,“ segir Björn.
„Hugmyndir að nýjum vörum koma víða að. Við eigum samtal við neytendur og verslunina, einnig höldum við hugarflugsfundi með okkar starfsfólki, höfum haft hugmyndasamkeppni og fleira. Einnig leitum við fanga á vörusýningum erlendis, skoðum vöruúrval í öðrum löndum, fáum hugmyndir frá okkar birgjum og svona mætti áfram telja.“
En hver skildi flippaðasta hugmyndin vera? „Það hafa nú ýmsar flippaðar hugmyndir dottið inn. Til dæmis man ég eftir því þegar við vorum að þróa grjónagrautinn okkar að einhverjum datt í hug að hafa lifrarpylsubita í toppi með. Alls ekki galin hugmynd auðvitað, en reyndist aðeins snúin í framkvæmd. Svo komu samstarfsaðilar okkar í Finnlandi með hugmynd um poppkorn í skyri og við náðum að þróa þá vöru, eða skyr með poppi og karamellu sem fór á markað í Finnlandi. Við höfum haft í huga að koma með það á markað hérlendis líka og það gæti alveg orðið að veruleika.“
Þegar kemur að því að ákvarða hvaða hugmyndir komast alla leið í framleiðslu er farið í bragðkannanir með áhugaverðar bragðtegundir og í framhaldinu er oft farið í neytendakannanir. „Þar sem við fáum neytendur til að hjálpa okkur við valið. Þær vörur sem koma best út úr því enda því yfirleitt á markaði.“
Skyr.is með dökku súkkulaði og vaniluskyr frá KEA er það vinsælasta í skyrinu sem stendur. „Salan á lakkrísskyrinu hefur líka byrjað geysivel og er varan núna ein af söluhæstu tegundum í skyri hjá okkur. Það er greinilegt að landsmenn eru sólgnir í lakkrís og finnst þetta ekki vont kombó. Vonandi heldur það bara áfram.“
Athygli hefur vakið að MS stendur bæði á bak við Skyr.is og KEA skyr. Hvernig stendur á því? „Í grunninn eru þetta ólíkar vörur, þ.e. skyrið sjálft er ekki eins í KEA skyri og Skyr.is. Einnig eru þetta bæði sterk og rótgróin vörumerki, sem eiga sína fylgismenn sem borða bara sína tegund eða vörumerki.“
Von er á nýjum bragðtegundum í verslanir í vikunni. „Við erum að koma með bara á næstu dögum nýtt Skyr.is, sem er með 2% fitu. Byrjum með tvær bragðtegundir, jarðarberjaböku og crème brulee. Þetta eru kolvetnaskertar tegundir en með aðeins meiri fitu en hefðbundið skyr, þannig að það hefur enn rjómakenndara bragð en hefðbundna skyrið. Það verður mjög spennandi að fylgjast með viðtökum á þessari nýjung,“ segir Björn sem er án efa með fleiri hugmyndir í vinnslu og sem áður segir er aldrei að vita nema að skyr með poppi verði að veruleika hérlendis.