Kleinuhringir með góðri samvisku

Helga Gabríela er nýjungagjörn í eldhúsinu.
Helga Gabríela er nýjungagjörn í eldhúsinu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Helga Gabríela bloggar á síðunni helgagabriela.is en hún hefur mjög gaman af því að baka og ekki skemmir fyrir ef uppskriftin er heilsusamleg. Hún segir þessa krúttlegu kleinuhringi vera einstaklega mjúka og bragðgóða og hægt sé að borða þá með góðri samvisku. Þeir henta flestum þar sem þeir eru bæði vegan og glútenlausir. Til þess að baka þetta þarf sérstakt kleinuhringjamót.

Girnilegir kleinuhringir að hætti Helgu Gabríelu.
Girnilegir kleinuhringir að hætti Helgu Gabríelu. Ljósmyndari: Helga Gabríela

Kleinuhringir

1 ½ bolli glútenlaust hafrahveiti (hún fínmalar hafrana í matvinnsluvél)
½ bolli kókospálmasykur
1 tsk. vínsteinslyftiduft
½ tsk. matarsódi
½ tsk. múskat
1/3 bolli graskers- eða eplamauk
2 msk. kókosolía, fljótandi
½ bolli kókosmjólk
1 tsk. vanilludropar
nokkrar sjávarflögur
hnetur eða fræ, til að skreyta

Uppskriftin gefur 12 stk.

1. Hitið ofninn í 175°C og smyrjið kleinuhringjamótið með kókosolíu.

2. Blandið saman þurrefnum í eina skál og síðan þeim blautu í aðra. Hrærið öllu síðan saman eða þangað til að deigið hefur þykknað vel.

3. Setjið deigið í sprautupoka og klippið smá gat á eitt hornið og sprautið í kleinuhringjamótið. Fyllið hvert kleinuhringjaform aðeins til hálfs og bakið í 8-12 mínútur, eða þar til þeir eru komnir með fallegan lit.

4. Leyfið kleinuhringjunum að kólna áður en glassúrið er sett yfir.


Glassúr

½ bolli kókospálmasykur
¼ bolli kókosmjólk
2 msk. kókosolía
1 tsk. vanilludropar

1. Setjið kókóspálmasykur í pott og hitið þar til verður gullinbrúnn.

2. Bætið þá öðru hráefni útí og látið þá sjóða þar til hæfilega þykkt

3. Síðan er þá komið að skemmtilega hlutanum, að dýfa og skreyta, segir Helga Gabríela. Hún saxaði niður sólblómafræ til að setja yfir kleinuhringina, en það er um að gera að gera að nota það sem hugurinn girnist.

Kleinuhringirnir eru síðan langbestir nýbakaðir.

Glassúrinn er algjört dúndur.
Glassúrinn er algjört dúndur. Ljósmyndari: Helga Gabríela
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert