Kostir haframjöls sem hráefnis eru ótal margir. Fyrir utan að vera bráðhollt, uppspretta flókinna kolvetna og trefja, vítamína og steinefna, er það ódýrt og það er hægt að bæta haframjöli í nær flesta matreiðslu og drýgja hana, allt frá kjötbollum upp í drykki. Flestum veitir ekki af til að bæta meltinguna, enda vantar okkur yfirleitt meiri trefjar í mataræðið. Til dæmis má vel setja haframjöl í eggjakökuna til að auka næringar- og trefjagildi hennar en egg innihalda mikið af próteinum og með höfrunum er því komin fullkomin samsetning til að borða til dæmis eftir góða kraftlyftingaæfingu.
1 bolli haframjöl
2 egg
1 laukur, fínt skorinn
1 tómatur, fínt skorinn
½ lítil paprika, fínt skorin
handfylli spínat
1 grænt chilialdin, fínt skorið
¼ tsk. chiliduft
3-4 msk. mjólk
3 tsk. olía
salt eftir smekk
Mýkið spínat á pönnu í 1 msk. af olíu í fáeinar mínútur við lágan hita. Sláið eggin saman, hellið haframjölinu og öðru hráefni út í ásamt spínatinu og blandið saman. Setjið 2 tsk. af olíu á pönnuna, hellið eggjablöndunni út á og hafið hitann rétt yfir meðallagi. Hrærið í miðjunni með sleikju fyrstu mínúturnar og hristið pönnuna öðru hvoru, þannig er auðveldara að snúa henni við. Snúið ommelettunni við og eldið á hinni hliðinni þar til eggin eru fullelduð. Gott er að leggja salat ofan á ommelettuna.